Fótbolti

Viður­kenna að VAR hafi bilað

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dómarinn Abongile Tom fékk ekkert að sjá á skjánum.
Dómarinn Abongile Tom fékk ekkert að sjá á skjánum. Skjáskot/X

Leikmenn og þjálfarar Benín voru æfir eftir að hafa verið neitað um vítaspyrnu í 1-0 tapi fyrir Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í D-riðli Afríkumótsins í gær. VAR-búnaður á vellinum bilaði svo dómari leiksins gat ekki endurskoðað atvikið.

Chancel Mbemba, varnarmaður og fyrirliði Kongó, var talinn hafa handleikið boltann í stöðunni 1-0 fyrir Kongó en óljóst var hvort boltinn hefði hæft hönd hans eða öxl.

Suðurafríski dómarinn Abongile Tom hljóp að skjánum við hlið vallarins til að skoða upptökurnar gat hann ekki séð neinar myndir þar sem VAR-kerfið bilaði.

Samkvæmt ESPN viðurkenndu skipuleggjendur eftir leik að bilun hefði verið í kerfinu.

Tom hafði fyrr í leiknum dæmt af skallamark framherjans Cedric Bakambu frá Kongó eftir ítarlega skoðun.

Gernot Rohr, þjálfari Benín, var æfur á vellinum þegar atvikið átti sér stað en kvartaði lítið eftir leik.

„Við urðum vitni að mjög góðum fótboltaleik sem liðið mitt átti ekki skilið að tapa,“ sagði Þjóðverjinn Rohr á blaðamannafundi eftir leik. „Liðið mitt gerði mig stoltan.

„Við undirbúum okkur nú vel fyrir leikinn gegn Botsvana,“ sagði hann enn fremur en bæði Benín og Botsvana eru án stiga eftir 3-0 tap þeirra síðarnefndu fyrir Senegal í gær. Liðin eigast við um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×