Fótbolti

Sú besta í heimi ætlar sér að koma til baka löngu fyrir Íslandsleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aitana Bonmatí með Gullhnöttinn sem hún vann þriðja árið í röð.
Aitana Bonmatí með Gullhnöttinn sem hún vann þriðja árið í röð. Getty/Angel Martinez

Aitana Bonmatí, sem á dögunum var valin besta fótboltakona heims þriðja árið í röð, segir að fótbrotið á dögunum gæfi henni tækifæri til að slaka á í fyrsta sinn í fimm ár.

Frábært ár Bonmatí með Barcelona og spænska landsliðinu endaði þó með vonbrigðum í síðasta mánuði þegar þrefaldi Gullknattarhafinn fótbrotnaði á æfingu fyrir úrslitaleik La Roja í Þjóðadeild UEFA gegn Þýskalandi. Það þýðir að hún spilar ekki fótbolta í fimm mánuði.

„Þetta eru fyrstu alvarlegu meiðslin sem ég hef orðið fyrir á ferlinum. Ég hef kannski fengið smávægileg meiðsli, einn mánuð, einn og hálfan mánuð, en aldrei fjóra eða fimm mánuði með aðgerð,“ sagði Aitana Bonmatí við ESPN.

Fyrsta sinn í þessari stöðu

„Þetta er því í fyrsta sinn sem ég er í þessari stöðu. En ég tek þessu á jákvæðan hátt. Ég nota þetta tækifæri til að slaka á, hugsa um sjálfa mig og vera róleg,“ sagði Bonmatí.

Bonmatí hefur varla misst úr leik á fótboltadagatalinu undanfarin ár, þar sem bæði Barcelona og Spánn hafa komist langt í öllum keppnum sem þau taka þátt í.

„Síðustu fimm ár hafa verið frábær, en líka erfið, hvort tveggja,“ bætti Bonmatí við.

„Því þegar ég lít til baka núna, þá eru þetta svo mörg ár á toppnum, nánast án hvíldar, þar sem ég hef spilað næstum allt sem, auk margra sigra og frábærra stunda, hefur í för með sér verulegt álag“ sagði Bonmatí.

Geta hjálpað mér að slaka á

„Ég held að þessi meiðsli geti hjálpað mér að slaka á á þann hátt sem ég hef ekki gert undanfarin ár. Þetta er annað markmið fyrir mig, öðruvísi markmið en að vinna titla eða eitthvað slíkt. Það snýst um að ná góðum bata og koma betri til baka en ég var,“ sagði Bonmatí.

Ef allt gengur að óskum ætti Bonmatí að hefja æfingar aftur einhvern tímann í apríl og þar sem úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer ekki fram fyrr en í lok maí gæti hún enn gegnt mikilvægu hlutverki í því hvernig tímabil Barcelona endar þegar liðið reynir að hefna fyrir tapið í úrslitaleiknum gegn Arsenal í fyrra.

Ekki verstu meiðslin

„Núna einbeiti ég mér bara að batanum. Markmið mitt er að vera komin til baka fyrir lok tímabilsins og ég held að það sé mögulegt því þetta eru ekki verstu meiðslin sem ég gæti fengið,“ sagði Bonmatí.

Ísland og Spánn eru saman í riðli í undankeppni HM og Bonmatí missir örugglega af fyrri leik þjóðanna á Spáni í mars en ætti að geta mætt klár til Íslands þegar seinni leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×