Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Íslendingar hafa lengi mótað sjálfsmynd sína út frá þeirri hugsjón að mannréttindi séu ófrávíkjanlegur grunnur réttarríkis. Sú hugsjón er þó ekki sjálfgefin heldur krefst hún stöðugrar vinnu og ábyrgðar, sérstaklega á tímum þar sem öfl sem vilja skipta fólki upp og útiloka eru að sækja í sig veðrið. Slík þróun eykur hættuna á bakslagi í réttindabaráttu jaðarsettra hópa og grefur undan vernd, þjónustu og aðgengi að úrræðum.

Reynsla mín af þessum veruleika er bæði persónuleg og fagleg. Ég hef um árabil unnið með hinsegin fólki innan réttarvörslukerfisins, frætt starfsfólk og komið að málum þar sem skortur á öryggi og skilningi getur haft alvarlegar afleiðingar. Ég hef séð hversu miklu máli það skiptir þegar þekking og ábyrgð eru til staðar og þegar skapað er rými þar sem virðing er ekki bara orð á blaði heldur sjáanleg í daglegu starfi. Ég hef einnig tekið þátt í að skapa sýnileika þar sem hann er ekki sjálfgefinn, meðal annars með því að standa að fræðslu og meira að segja gleðigöngum innan fangelsa á árum áður. Það var aðgerð sem hafði raunveruleg áhrif á líðan, sjálfsmynd og tilfinningu fyrir því að tilheyra í erfiðum aðstæðum.

Reynslan hefur kennt mér að vernd mannréttinda er háð því að þekking, ábyrgð og viðbragðsgeta fari saman í daglegum ákvörðunum. Þess vegna má mannréttindabarátta aldrei einskorðast við orðræðu eða fallegar yfirlýsingar heldur þarf hún að ná inn í stofnanir, inn á vinnustaði og inn í daglegt líf fólks.

Staða hinsegin fólks á Íslandi er sterk í alþjóðlegum samanburði og við eigum að vera stolt af þeim árangri. En slíkt stöðumat er ekki endapunktur og það krefst stöðugrar árvekni að tryggja að réttindin haldi gildi í stað þess að vera dregin í efa eða gerð að pólitísku bitbeini. Til þess þarf pólitíska forystu, fjármagn og raunverulega forgangsröðun. Þátttaka í stjórnmálum skiptir máli, ekki aðeins á kjördag, heldur líka þegar framboðslistar eru mótaðir og ákvörðun tekin um það hverjir fá að tala fyrir hönd samfélagsins.

Ég hef ekki alltaf verið opinber baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks en engu að síður hef ég unnið að þessum málum um langt árabil innan kerfisins. Nú stíg ég fram með ákveðnari hætti. Ég bý með eiginmanni mínum og við höfum verið saman í átján ár. Ég þekki það þegar réttindi eru dregin í efa, fólk er sett undir smásjá eða tilvera þess gerð að ágreiningsefni í stjórnmálum. Við sem tilheyrum samfélagi hinsegin fólks vitum að það skiptir máli að heyra í rödd sem þekkir baráttuna af eigin raun.

Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þann 24. janúar 2026 móta félagar í flokknum þá rödd sem mun heyrast í borgarstjórn og velja þá sem taka þátt í samvinnu og málamiðlunum framtíðarinnar. Þar skiptir máli að þeir sem hljóta traustið endurspegli margbreytileika samfélagsins og hafi raunverulega reynslu af því hvernig kerfi geta bæði varið og brugðist fólki. Samfélag sem hlustar á reynslu þeirra sem hafa staðið utan meginstraumsins er samfélag sem styrkir eigin stoðir.

Með framboði mínu vil ég leggja mitt af mörkum til að tryggja að þessi réttindi séu ekki eingöngu orðin tóm og ég mun láta verkin tala.

Höfundur tekur þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026. 




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×