Innlent

Mikill meiri­hluti vill lög­festa rétt barna til leikskólavistar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Lagt hefur verið til að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur.
Lagt hefur verið til að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur. Vísir/Vilhelm

Alls eru 74 prósent hlynnt því að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi. 18 prósent eru hvorki hlynnt né andvíg og átta prósent eru andvíg. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar á vegum Prósents en nýlega voru kynntar tillögur frá aðgerðahópi á vegum stjórnvalda í leikskólamálum.

Ein tillaga hópsins snýr að því að lögfesta leikskólastigið. Það eigi að vera liður í því að tryggja börnum leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi lýkur. Hópurinn hafði til skoðunar bilið sem er á milli leikskóla og fæðingarorlofs. Foreldrar eiga samanlagt rétt á tólf mánaða fæðingarorlofi. Börn komast inn á leikskóla um 14 til 18 mánaða, það er misjafnt eftir sveitarfélögum.

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) ert þú því að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi? Svör þeirra sem tóku afstöðu. Prósent

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Prósents eru konur marktækt hlynntari því að réttur til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi en karlar. Alls eru 80 prósent kvenna hlynntar því en 60 prósent karla. 

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) ert þú því að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi? Svör eftir aldri ásamt meðaltali hvers aldurshóps. Prósent

Þá kemur einnig fram í niðurstöðum að yngri aldurshópar eru hlynntari því að slík breyting verði lögfest en þau sem eldri eru. Miðað við niðurstöður eru samt allir aldurshópar frekar hlynntir slíkri breytingu. Lægsta hlutfallið er í aldurshópi 65 ára og eldri en þar eru samt sem áður 60 prósent hlynnt.

Íbúar í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur eru hlynntari því að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi, en íbúar á landsbyggðinni.

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) ert þú því að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi? Svör eftir búsetu. Prósent

Gögnum var safnað frá 12. til 29. desember 2025 í netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 1.950 einstaklingar 18 ára og eldri og var svarhlutfall 50 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×