Körfubolti

„Mjög fáir sóknar­menn sem hafa komið til landsins verið jafn góðir og hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Remy Martin varð bikarmeistari með Keflavík 2024.
Remy Martin varð bikarmeistari með Keflavík 2024. vísir/vilhelm

Í síðasta þætti Bónus Körfuboltakvölds var rætt um endurkomu Remys Martin til Keflavíkur.

Martin lék með Keflavík á þarsíðasta tímabili þegar liðið varð bikarmeistari. Hann sleit hásin í undanúrslitarimmunni gegn Grindavík og hefur ekkert spilað síðan.

Þrátt fyrir það hafa Keflvíkingar sótt Martin á ný og Jón Halldór Eðvaldsson er spenntur fyrir því að sjá Bandaríkjamanninn aftur í bláa búninginn.

„Ef maðurinn er, segjum bara á svipuðum stað og hann var áður en hann sleit þessa hásin, er þetta, ekki bara fyrir Keflvíkinga heldur einnig íslenskan körfubolta, stórkostlegt,“ sagði Jón Halldór í síðasta þætti Bónus Körfuboltakvölds.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - umræða um endurkomu Remys Martin

Martin er mjög atkvæðamikill sóknarmaður og Hlynur Bæringsson segir að hann eigi fáa sér líka á þeim enda vallarins.

„Hann var á öðru stigi en aðrir leikmenn hérna. Það var ekkert hægt að eiga við hann. Það þurfti að setja helvíti marga á hann til að eiga möguleika í hann. Maður upplifði stundum ákveðið vonleysi. Það eru mjög fáir sóknarmenn sem hafa komið til landsins verið jafn góðir og hann,“ sagði Hlynur.

Meiðsli sem fara illa í marga

Hann þurfti þó smá umhugsunarfrest þegar Stefán Árni Pálsson spurði hann hvort hann hefði tekið sömu ákvörðun og Keflvíkingar; að fá Martin aftur.

„Já, ég held það. Hásinarmeiðsli fara mjög illa í margt íþróttafólk og menn geta bara verið búnir. En þeir hljóta að hafa fengið einhverja vissu um að hann væri í ákveðið góðu standi. Hann er ekki að fá einhverja meðhöndlun hérna á Íslandi einu sinni í mánuði. Hann var með topp endurhæfingu. Ég held að ég hefði gert það út af því hvaða þak hann gefur þeim,“ sagði Hlynur.

Ótrúlegt áhugaleysi á vörn

Gamli landsliðsfyrirliðinn benti þó á annmarka Martins þegar kemur að varnarleiknum.

„Hann sýndi alveg ótrúlegt áhugaleysi á vörn. Það er hin hliðin á þessu. Það var eins og honum væri alveg sama hvort hitt liðið skoraði. Það var ekki út af því að hann gat það ekki líkamlega. Hann átti stöður inni á milli þar sem hann tók greinilega einhverju persónulega og ætlaði að stoppa og gat það alveg,“ sagði Hlynur.

„Ég held að við munum ekki sjá það aftur frá honum núna. Hann er ekki að fara að breytast í besta varnarmanninn í deildinni en hann mun sýna meira framlag. Hann eyðir rosalegri orku sóknarmegin. Hann var alltaf með boltann og mögulega var hann eitthvað að hvíla sig en það þarf að bæta það því það eru nokkur lið sem munu nýta sér þann veikleika ef hann ætlar að spila svipað og síðast.“

Martin var ekki kominn með leikheimild þegar Keflavík tapaði fyrir ÍR í Skógarselinu á sunnudaginn, 89-96.

Næsti leikur Keflavíkur er gegn Val í VÍS-bikarnum á mánudaginn.

Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×