Enski boltinn

„Mér finnst mjög erfitt að heyra þetta“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, gæti verið án Hugo Ekitike í öðrum leiknum í röð.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, gæti verið án Hugo Ekitike í öðrum leiknum í röð. Getty/Fabrizio Carabelli

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði frá því á blaðamannafundi í dag að óvíst sé hvort framherjinn Hugo Ekitike geti spilað með Liverpool gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á Emirates-leikvanginum annað kvöld.

Ekitike, sem er markahæsti leikmaður Liverpool á þessu tímabili, missti af 2-2 jafnteflinu gegn Fulham á sunnudag vegna tognunar í vöðva. Hann hefur enn ekki æft fyrir ferð Liverpool til Norður-Lundúna, en framherjinn Alexander Isak er einnig frá vegna fótbrots og Mohamed Salah er síðan með landsliði Egyptalands á Afríkumótinu.

„Hann hefur ekki æft með okkur enn sem komið er,“ sagði Slot á fréttamannafundi fyrir leikinn.

Sjáum til hvort hann geti æft með okkur í dag

„Við skulum sjá til hvort hann geti æft með okkur í dag. Fyrir tveimur eða þremur dögum, þegar við spiluðum gegn Fulham, sagði ég að hann yrði ekki lengi frá en það er erfitt því leikirnir koma svo hratt. Hann er á mörkunum, kannski getur hann æft með liðinu eða kannski tekur það einn eða tvo daga í viðbót,“ sagði Slot.

Jafntefli Liverpool á Craven Cottage þýðir að liðið er nú taplaust í níu leikjum í öllum keppnum og komið upp í fjórða sæti deildarinnar. Slot hefur þó sætt gagnrýni fyrir slaka frammistöðu liðsins, en Liverpool hefur tapað stigum í síðustu tveimur leikjum sínum.

Höfum klárlega gert tveimur jafnteflum of mikið

„Við erum taplausir í níu leikjum en við höfum klárlega gert tveimur jafnteflum of mikið,“ sagði Slot. „Hvar stöndum við? Ég held ég hafi sagt það margoft að svarið við þeirri spurningu er að við erum ekki þar sem við viljum vera, en mér finnst við vera með mjög hæfileikaríkan hóp. Ef allir eru heilir og klárir, þá held ég að við getum gert sérstaka hluti,“ sagði Slot.

„Ég held að við höfum líka sýnt það á þessu tímabili því við höfum unnið nokkra mjög glæsilega sigra, en við höfum líka gert óspennandi jafntefli og tapað leikjum. Við höfum ekki náð stöðugleika en við höfum þegar sigrað nokkur mjög góð lið, svo það segir manni að hæfileikarnir séu klárlega til staðar en stöðugleikinn ekki,“ sagði Slot.

Ég myndi nota önnur orð

Um gagnrýnina á leikstíl Liverpool bætti Slot við: „Mér finnst mjög erfitt að heyra þetta en það er ekki þannig að ég sé algjörlega ósammála. Ég myndi nota önnur orð og ég myndi taka ákveðna hluti til greina. Ég vil vinna eins marga titla og ég get en ég held að ég sé líka þekktur fyrir það að liðin mín reyna alltaf að spila sóknarbolta. Ég get aðeins sagt að við erum enn að reyna að gera það,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×