Erlent

Óttast inn­rætingu íslam­ista í breskum há­skólum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mohamed bin Zayed Al Nahyan, forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Mohamed bin Zayed Al Nahyan, forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Getty

Yfirvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum styrkja ekki lengur ríkisborgara sína til háskólanáms í Bretlandi, af ótta við að nemendur verði útsettir fyrir innrætingu samtaka á borð við Múslimska bræðralagið. Múslimska bræðralagið eru alþjóðleg samtök múslima sem skilgreind eru sem hryðjuverkasamtök í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en ekki í Bretlandi.

Fjallað var um málið í vikunni í miðlum á borð við Financial Times, Telegraph, The Standard, Fox, og Middle East eye.

Sameinuðu arabísku furstadæmin veita fjölmörgum framúrskarandi nemendum veglega ríkisstyrki á hverju ári sem ætlaðir eru til að standa straum af kostnaði við nám erlendis í virtum háskólum.

Í júní í fyrra birti menntamálaráðuneyti Furstadæmanna lista yfir þá erlendu háskóla sem yfirvöld myndu styrkja nemendur til að sækja, og var þar engan háskóla í Bretlandi að finna.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, í opinberri heimsókn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í desember 2024.Getty

Á listanum voru hins vegar háskólar í Bandaríkjunum, Ástralíu, Ísrael og Frakklandi.

Bretar spurðu svo yfirvöld í Sameinuðu furstadæmunum út í málið, sem tilkynntu þeim að þeim hefðu ekki orðið á mistök við gerð listans.

Ástæðan fyrir þessu var sögð ótti yfirvalda í Abu Dhabi að nemendur í breskum háskólum væru í hættu á að vera útsettir fyrir innrætingu og áróðri íslamskra samtaka á borð við Múslimska bræðralagið.

Sarah bint Yousif Al Amiri er menntamálaráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna.Getty

Árið 2014 var bræðralagið skilgreint sem hryðjuverkasamtök í furstadæmunum, og hafa stjórnvöld í Abu Dhabi ítrekað þrýst á yfirvöld víða um heim, til dæmis í Bretlandi, að gera slíkt hið sama.

Bretar hafa ekki viljað skilgreina bræðralagið sem hryðjuverkasamtök, en í yfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar Bretlands árið 2015 kom fram að þrátt fyrir að hugmyndafræði samtakanna væri mjög andsnúin breskum gildum og siðum ætti ekki að skilgreina þau sem hryðjuverkasamtök.

Múslimska bræðralagið er á bak við að minnsta kosti átta stofnanir eða samtök víða um Bretland, og hafa yfirvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum ítrekað biðlað til Bretlands að setja starfsemi þeirra skorður.

Fjöldi háskólanemenda frá Furstadæmunum í Bretlandi dróst saman um 55 prósent frá 2022 til 2025, og er fækkunin rakin að miklu leyti til deilunnar um Múslimska bræðralagið.

Tekið er fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að nemendur úr vel stæðum fjölskyldum sendi börn sín í skóla í Bretlandi, en skólar þar séu hins vegar ekki lengur styrkhæfir.

Miklar umræður hafa spunnist um þessi mál á samfélagsmiðlum, en JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna er meðal þeirra sem hafa lagt orð í belg.

Hann deildi fréttinni á X, og sagði „Þessi fyrirsögn er algjörlega rugluð.“

„Bestu vinum okkar við Persaflóann finnst að innræting íslamista sumstaðar í Vestrinu sé of hættuleg,“ sagði varaforsetinn um málið.

Rugluð frétt, segir Vance.X



Fleiri fréttir

Sjá meira


×