Skoðun

Val­kvætt minnis­leysi of­beldis­manna

Guðný S. Bjarnadóttir skrifar

Þolendur kynferðisofbeldis og ofbeldis í nánu sambandi kannast mörg við að gerendur segist þjást af minnisleysi þegar kemur að því að útskýra gjörðir sínar fyrir lögreglu eða dómi. Þetta er sígild aðferð til að firra sig ábyrgð sem oft er gripið til þegar viðkomandi á sér enga málsvörn. Það er einfaldlega miklu erfiðara að sanna ásetning geranda ef hann man hreinlega ekki eftir því að hafa beitt ofbeldi, hvað þá að hafa ætlað sér það.

Það gengur illa upp að þjást af minnisleysi um brot og segjast saklaus af því á sama tíma.

Enn og aftur birtist þessi þversögn almenningi í yfirlýsingu sakbornings í nýlegu nauðgunarmáli gegn barni sem er nú til rannsóknar. Á sama tíma og yfirvöld reyna ítrekað að koma sakborningnum í gæsluvarðhald gefur hann út yfirlýsingu um meint sakleysi sitt. Meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingunni er kunnuglegt stef um minnisleysi þegar kemur að helstu atriðum brotsins. Hvers vegna ætti að reyna að koma manninum í gæsluvarðhald ef hann er ekki talinn hættulegur samfélaginu og talið líklegt að hann framdi brotin sem hann er sakaður um? Ofbeldismenn eru alltaf hættulegir og aðfinnsluvert hversu sjaldan gæsluvarðhaldi er beitt á íslenska borgara og ekki síður hitt hversu langan tíma ofbeldismál taka nær undantekningalaust í kerfinu.

Brotaþolar sviptir frelsi

Það hefur ítrekað verið bent á að þolendur eru ekki frjálsir á meðan mál þeirra velkjast um í kerfinu. Gerandinn er jú ,,saklaus uns sekt er sönnuð” og frjáls ferða sinna. Það kallast víst ,,slaufunarmenning” að halda öðru fram. Sjálf mátti ég bíða í tvö angistarfull ár eftir að fá að vita hvort ákæra yrði gefin út í máli þar sem ég kærði nauðgun og var stöðugt með það yfirvofandi að mæta gerandanum hvar sem var og hvenær sem var. Ekkert nálgunarbann, ekkert öryggi og engin svör um hvað tæki við næst. Í tvígang mætti ég gerandanum þar sem hann sýndi mér ógnandi hegðun. Í bæði skiptin var ég valdalaus í aðstæðum sem kerfið skapaði.

Í sakamálum sem þessum er merkilegt að þó enginn vafi leiki á að brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi hvílir á ákæruvaldinu að sanna að ásetningurinn til að fremja brot hafi verið til staðar. Ég má til með að benda á að enginn beitir ofbeldi óvart og enginn nauðgar óvart. Brotaþolar eru ekki að tilkynna ímynduð brot, þau eru að leita að réttlæti sem því miður er sárasjaldgæft að finna í réttarkerfinu. Sakborningum nægir oftast að bera fyrir sig minnisleysi og neita fyrir brotin og til vara að þetta hafi verið með vilja hlutaðeigandi. Réttur þeirra til að vera hvergi ásakaðir hvorki í ræðu eða riti er miklu ríkari en réttur brotaþola til að tjá sig.

Það er tími til kominn að uppfæra löggjöfina og nýta hana til hins ýtrasta þegar heimildir bjóða upp á það. Við þurfum að bæta við nauðgun af gáleysi í refsilöggjöfina okkar. Minnisleysi og neitun gerenda á ekki að vega þyngra en framburður brotaþola og öll þau gögn sem styðja við þá frásögn. Hvað þá valkvætt minnisleysi gerenda.

Höfundur er stjórnarformaður Vitundar, samtaka gegn kynbundnu ofbeldi.


Heimildir:

https://www.visir.is/g/20262827715d/-mar-trod-sem-eg-mun-bera-med-mer-alla-aevi-

https://heimildin.is/pistill/ad-taka-upp-naudgun-af-galeysi-i-islenskum-retti/

https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/12.%20Ger%C3%B0ur%20Gu%C3%B0mundsd%C3%B3ttir%20-%20R%C3%A9tturinn%20til%20a%C3%B0%20fella%20ekki%20%C3%A1%20sig%20s%C3%B6k%20%C3%AD%20stj%C3%B3rns%C3%BDslunni.%20Almenni%20hlutinn.pdf




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×