Skoðun

Það þarf ekki full­komið fólk til að móta gott sam­félag. Það þarf fólk sem er til­búið að vera til staðar

Liv Åse Skarstad skrifar

Hver kannast ekki við þessa hugsun „Ég er ekki nógu góð/ur....“? Viljann vantar ekki, efinn um að maður sé nógu góður, er einfaldlega of sterkur. Maður heldur að aðrir viti meira, séu klárari, tilbúnari. Ég hef sjálf staðið þar, oftar en mig langar að muna.

Að bjóða sig fram til starfa fyrir samfélagið sitt hljómar stórt, sérstaklega þegar maður er ungt foreldri með dagana fulla af ábyrgð og verkefnum. Þá er auðvelt að segja sér að þetta sé ekki fyrir fólk eins og mig. Samt er einmitt núna sá tími ársins að renna upp þegar framboð til sveitarstjórnarkosninga fara að líta dagsins ljós. Um allt land er verið að leita að fólki. Ekki fullkomnu fólki, heldur raunverulegu fólki. Það er alltaf pláss fyrir gott fólk.

Sveitarstjórn snýst ekki um titla eða fullkomin svör. Hún snýst um daglegt líf. Skóla, leikskóla, vinnutíma, biðlista og þjónustu. Um hvernig það er að ala upp börn hér og láta lífið ganga upp. Þar skiptir reynsla úr lífinu meira máli en nokkur skýrsla.

Við sem erum ungir foreldrar berum með okkur þessa þekkingu. Við þekkjum kerfin af því við höfum þurft að treysta á þau. Við vitum hvar hlutirnir nuddast og hvar þeir bresta. Þetta eru ekki smáatriði. Þetta er kjarni samfélagsins.

Samt erum við alltof fljót að halda aftur af okkur. Bíða eftir því að vera nógu klár eða nógu viss. Á meðan ganga aðrir fram. Kannski er það ástæða þess að svo fátt ungt fólk tekur þessi skref, ekki af því að það hafi ekkert að gefa, heldur af því að það efast um að það sem það hafi upp á að bjóða sé nóg.

Að bjóða sig fram er ekki að segjast vita allt. Það er að segjast vilja vera með. Hlusta, læra og leggja sitt af mörkum. Og nú er rétti tíminn til að kynna sér málin, spyrja spurninga og sjá hvaða leiðir eru opnar.

Kannski er þessi hugsun sem bankar á hjá þér ekki tilviljun. Kannski er þetta líka fyrir þig!

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknar og frjálsra á Akranesi.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×