Innlent

Tveir full­trúar Land­helgis­gæslunnar á Græn­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Núverandi höfuðstöðvar danska hersins, Arktisk Kommando, við höfnina í Nuuk.
Núverandi höfuðstöðvar danska hersins, Arktisk Kommando, við höfnina í Nuuk. Egill Aðalsteinsson

Tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar taka þátt í aukinni hernaðarviðveru Atlantshafsbandalagsins á Grænlandi. Þeir munu aðstoða við undirbúningar æfingarinnar Arctic Endurance sem hófst í dag og felur í sér verulega aukningu hermanna á Grænlandi sem harla óvenjulegt telst að hafi verið hrundið af stað akkúrat í dag.

Greint var frá því í morgun að dönsk yfirvöld hefðu afráðið að senda talsvert hergagna og hermanna til Grænlands. Fyrstu hermennirnir voru sendir fyrir tveimur dögum siðan og eru þeir sagðir undirbúa komu fleiri hermanna frá Danmörku og mögulega öðrum Evrópuríkjum. Varnarmálaráðherrar Noregs og Svíþjóðar hafa staðfest þátttöku sína í æfingunni.

Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra Danmerkur sagði á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í dag að ónefndar bandalaþjóðir tækju þátt og að sum þeirra gerðu sína hermenn út til Grænlands en tók ekki fram hverjar þær þjóðir væru. Norðmenn staðfestu fyrr í kvöld að tveir fulltrúar yrðu sendir út á þeirra vegum og forsætisráðherra Svíþjóðar staðfesti sömuleiðis að þeir sendu fulltrúa til Grænlands að beiðni danskra stjórnvalda.

Ægir Þór Eysteinsson fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir í svari við fyrirspurn Vísis að Ísland taki þátt í æfingunni Arctic Endurance, bæði með hinum venjubundna gistiríkjastuðningi og með beinni hætti.

„Um er að ræða aukna viðveru á Grænlandi í tengslum við æfinguna Arctic Endurance, sem er liður í hefðbundnum varnaræfingum Dana á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi,“ segir hann.

„Ísland tekur þátt í æfingunni með venjubundnum hætti, þ.e. með gistiríkjastuðning við bandalagsríki okkar og þá leggur Ísland til tvo fulltrúa frá Landhelgisgæslunni við undirbúning æfingarinnar.“

Ekki liggur fyrir í hverju þessi aðstoð felst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×