Enski boltinn

Nýr stjóri Chelsea sagðist sjálfur bera á­byrgð á mis­tökum mark­varðarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Sanchez reynir að kýla boltann frá í leik Chelsea og Arsenal á Stamford Bridge í gærkvöldi.
Robert Sanchez reynir að kýla boltann frá í leik Chelsea og Arsenal á Stamford Bridge í gærkvöldi. Getty/Alex Pantling

Liam Rosenior, nýr knattspyrnustjóri Chelsea, segist vera sjálfur „ábyrgur“ fyrir mistökum Robert Sanchez og varði markvörð sinn eftir 3-2 tap í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins gegn Arsenal í gærkvöldi.

Þessi 28 ára spænski landsliðsmarkvörður gerði mistök í tveimur fyrstu mörkum Arsenal á Stamford Bridge.

Sanchez náði ekki að grípa hornspyrnu Declan Rice þegar fyrsta markið var skorað á sjöundu mínútu, sem gerði Ben White kleift að skalla boltann í netið. Fyrirgjöf rann svo í gegnum hendur markvarðarins og Viktor Gyökeres skoraði af stuttu færi á 49. mínútu.

Martin Zubimendi hjá Arsenal skoraði einnig en varamaðurinn Alejandro Garnacho hjá Chelsea skoraði tvö mörk og hélt þar með liði sínu inni í einvíginu.

Í fyrsta heimaleik sínum sem stjóri Chelsea sagði Rosenior að hann væri að vinna að nýrri taktískri nálgun fyrir Sanchez.

Þetta er ekki bara Rob að kenna

„Þetta er liðsmark, þetta er ekki bara Rob [Sanchez] að kenna,“ sagði hann. „Ég er að biðja Rob um að gera hluti sem hann hefur ekki gert áður. Ég sagði við hann fyrir leikinn og ég tók það skýrt fram, að þegar leikmenn mínir gera mistök, þá er það á mína ábyrgð,“ sagði Liam Rosenior.

„Hann varði skot í seinni hálfleik sem var algjör heimsklassavarsla. Það hefði getað slegið okkur út úr einvíginu. Hann mun bæta sig hvað varðar skilning sinn á því sem ég vil sjá,“ sagði Rosenior.

Ég hef aðeins unnið með honum í tvo daga

„Þetta er fyrsti leikur Rob með mér, ég hef aðeins unnið með honum í tvo daga. Ég þarf að setja mitt mark á liðið. Þess vegna er ég hér. Ég vil ekki gera það á kostnað úrslitanna en ég þarf að tryggja að við vinnum núna en höldum áfram að bæta okkur til að ná þangað sem við viljum komast á þessu tímabili. Þetta er mjög fín lína,“ sagði Rosenior.

„Það er margt jákvætt í frammistöðu Rob. Það sem þið vitið um mig er að ég ver leikmenn mína. Ég er að biðja hann um að gera ákveðna hluti. Ef hann gerir mistök við að gera það sem ég bið hann um, þá er það á mína ábyrgð,“ sagði Rosenior.

Mitt starf er að hjálpa þeim

„Ég hef mikla trú á því að til lengri tíma litið munum við bæta okkur sem lið með þeim skilaboðum sem við erum að gefa honum í öllum leikatriðum. Mitt starf er að hjálpa þeim, ekki að kenna þeim um,“ sagði Rosenior.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×