Erlent

Gríðar­leg von­brigði og mikið á­hyggju­efni

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ákvörðun Trump vonbrigði.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ákvörðun Trump vonbrigði. vísir/vilhelm

„Ég verð að segja eins og er að þessi nýjustu skilaboð frá Bandaríkjaforseta eru mikil vonbrigði og áhyggjuefni. Ekki síst fyrir líkt þenkjandi þjóðir sem trúa á frelsi, lýðræði og alþjóðalög og virðingu fyrir þeim. Þetta eru mikil vonbrigði.“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um þá stöðu sem er komin upp vegna ákvörðunar Donald Trump Bandaríkjaforseta að leggja tíu prósenta toll á allar innfluttar vörur frá sjö ríkjum sem tilheyra Atlantshafsbandalaginu. Þann fyrsta júní verður tollurinn hækkaður í 25 prósent ef Bandaríkin verða ekki búin að eignast Grænland fyrir þann tíma.

Tollarnir beinist gegn löndum sem hafa sett sig upp á móti því að Bandaríkin eignist Grænland með því að senda mannafla til Grænlands síðustu daga. Enn hefur ekkert komið fram sem gefur til kynna að Grænlandstollarnir bitni á Íslandi þrátt fyrir að hafa sent tvo fulltrúa Landhelgisgæslunnar til eyjunnar í norðri.

„Afstaða okkar Íslendinga er algjörlega skýr og hún er alveg óbreytt. Við stöndum að sjálfsögðu með Grænlandi og konungsríkinu Danmörku og undirstrikum það nú sem áður að það er Grænlendinga að ráða sinni framtíð,“ segir Þorgerður sem ítrekar mikilvægi sjálfsákvörðunarrétts þjóða. 

Kemur að einhverju leyti á óvart að Ísland sé ekki á lista

Alþjóðastjórnmálafræðingur sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að það geti vel verið að Trump hafi gleymt Íslandi enda ekki verið mikið um mannafla okkar á Grænlandi í alþjóðlegum fjölmiðlum. Ísland gæti bæst á listann á næstu dögum að hennar mati.

Spurð hvort það komi til greina að breyta eitthvað til í stefnu eða draga fulltrúa okkar frá Grænlandi segir Þorgerður:

„Nei. Íslensku fulltrúarnir tveir verða ekki kallaðir heim í ljósi þessara hótana um tolla. Það er ekki þannig sem við vinnum. Við undirstrikum nú sem fyrr okkar stefnu að við stöndum með Grænlandi og við stöndum líka með bandalagsríkjum okkar.“ 

Kemur það á óvart að Ísland sé ekki á þessum lista?

„Ég er bara ekki með neinar vangaveltur um það. Kannski að einhverju leyti en ég ætla ekki að velta því fyrir mér afhverju við erum á listanum eða ekki. Aðalatriðið er að við teljum yfirlýsingar af þessum toga og aðgerðir engan veginn hjálplegar.“

Áhyggjur af þróuninni sem bitni á frelsi og lýðræði

Fjölmargir Evrópuleiðtogar hafa stigið fram og fordæmt útspil Trumps. Þá hefur verið vísað til áformanna sem fjárkúgunar. Verslunarsamningur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem var undirritaður í fyrra er nú í uppnámi en meirihluti Evrópuþings neitar nú að staðfesta samkomulagið. 

Sendiherrar Evrópusambandsins koma saman á neyðarfundi seinna í dag. Viðskipta- og tollastríð á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna til lengri tíma gæti bitnað á íslenskum efnahag.

„Ég hef áhyggjur af því að tollastríð yfirhöfuð bitni á lífsgæðum, bitni á frelsinu og lýðræðinu sem fylgir því að hafa opna og frjálsa markaði. Ég hef almennt áhyggjur af þessari þróun. Fyrir lítil lönd ekki síst þá er lykilatriði að virðing sé fyrir alþjóðalögum. Þessi þróun núna undanfarið er verulegt áhyggjuefni fyrir vestrænar lýðræðisþjóðir. Þar með talið Ísland.“

Hefur samband Bandaríkjanna og Evrópu einhvern tímann verið verra en núna?

„Þetta er snúið samband en það skiptir máli að það sé talsamband og að menn reyni að bera virðingu og fara eftir diplómatískum leiðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×