Erlent

Segir þúsundir hafa dáið á grimmi­legan máta

Samúel Karl Ólason skrifar
Ali Khamenei, æðstiklerkur Íran, segir Donald Trump vera glæpamann og að draga þurfi Bandaríkin til ábyrgðar vegna mótmælanna í Íran.
Ali Khamenei, æðstiklerkur Íran, segir Donald Trump vera glæpamann og að draga þurfi Bandaríkin til ábyrgðar vegna mótmælanna í Íran. AP/Vahid Salemi

Ali Khamenei, æðstiklerkur Íran, viðurkenndi í fyrsta sinn í ræðu sem hann hélt í gær að þúsundir hefðu látið lífið í mótmælum í Íran á undanförnum vikum. Sumir hefðu dáið á „ómennskan og grimmilegan“ máta. Hann kenndi þó Bandaríkjunum og Ísrael um allt saman.

„Þeir sem tengdust Ísrael og Bandaríkjunum ollu gífurlega miklum skaða og bönuðu nokkur þúsund manns á mótmælunum sem skóku Íran í meira en tvær vikur,“ sagði æðstiklerkurinn í ræðunni í gær, samkvæmt frétt Al Jazeera.

Hann lýsti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem glæpamanni og sagði hann hafa haft beina aðkomu að mótmælunum, sem Khamenei kallaði „nýjustu and-Íran uppreisnina“.

Enn fremur sagði Khamenei að ríkisstjórn Íran myndi ekki fara út í stríð við önnur ríki en ekki væri hægt að leyfa innlendum né erlendum glæpamönnum að komast hjá refsingu.

Engar staðfestar tölur um dauðsföll í mótmælunum í Íran liggja fyrir en mannréttindasamtök sem starfrækt eru í Bandaríkjunum segja að minnsta þrjú þúsund hafi látið lífið. Einnig hefur verið áætlað að dauðsföllin gætu verið allt að tólf þúsund.

Yfirvöld í Íran hafa sagt að um þrjú þúsund hafi verið handteknir vegna mótmælanna en talið er að þeir séu mun fleiri.

Hlutar ræðu Khameneis hafa verið birtir á X en í ræðunni beindi æðstiklerkurinn reiði sinni ítrekað að Trump og sagði hann bera ábyrgðina á mótmælunum og dauðsföllunum í Íran. Meðal annars kallaði hann Trump glæpamann og sagði að draga þyrfti Bandaríkin til ábyrgðar.

Trump segir Khamenei sjúkan

Í viðtali við Politico í gær sagði Trump að Kamenei væri „sjúkur maður“ sem hefði rústað Íran og drepið þúsundir manna. Kominn væri tími á nýja leiðtoga í Íran.

Trump hafði ýtt undir mótmæli í Íran, eftir að þau hófust, og sagðist ætla að koma mótmælendum til aðstoðar. Þá hótaði hann hernaðarinngripi ef mótmælendur yrðu drepnir af öryggissveitum en hann greip þó ekki til aðgerða að öðru leyti en að beita refsiaðgerðum gegn embættismönnum.

Þá sagðist hann hafa hætt við að gera loftárásir á Íran eftir að honum hafi borist loforð um að ekki stæði til að taka handtekna mótmælendur af lífi. Embættismenn og saksóknarar í Íran hafa gefið til kynna að það sé rangt og ýtti Khamenei undir það í ræðu sinni.

Trump hefur ekki útilokað hernaðaraðgerðir gegn klerkastjórninni og hefur sent flugmóðurskip, herþotur og loftvarnarkerfi á svæðið. Ráðamenn í Mið-Austurlöndum og víðar telja, samkvæmt Wall Street Journal, að árásir á Íran séu enn mögulegar.

Mótmæltu vegna efnahagsmála

Umfangsmikil mótmæli hafa verið nokkuð tíð í Íran á undanförnum árum en þau hafa iðulega snúist um að mótmælendur vilji aukið frelsi frá klerkastjórninni. Að endingu hafa mótmælin oft verið kveðin niður með miklu harðræði.

Rætur mótmælanna má að þessu sinni að langmestu rekja til mjög slæms efnahagslegs ástands í Íran. Gjaldmiðill Íran hefur hríðfallið í virði undanfarið ár, verðlag hefur hækkað mjög þar sem verðbólga mælist fjörutíu prósent og aðstæður almennings hafa versnað til muna.

Mótmælin virðast vera búin eftir að klerkastjórnin mætti mótmælendum af mikilli hörku. Myndefni hefur sýnt öryggissveitir skjóta mótmælendur á götum Íran. Aðstæður hafa þó ekki skánað í Íran og eru frekari mótmæli í framtíðinni möguleg.


Tengdar fréttir

Reyna að rjúfa nettenginu endanlega

Klerkastjórnin í Íran vinnur í því að rjúfa tengingu borgara sinna við veraldarvefinn endanlega, að sögn samtaka sem fylgjast með vefritskoðun íranskra stjórnvalda. Verið sé að koma upp sérírönsku interneti án tengingar við umheiminn.

Trump segir stjórnvöld í Íran hætt að drepa mótmælendur

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa verið fullvissaður um að stjórnvöld í Íran séu ekki lengur að drepa mótmælendur í landinu en að hann muni fylgjast með stöðu mála og sjá til með mögulegar hernaðaraðgerðir.

Reyna að tala Trump til og óttast afleiðingar árása

Ráðamenn í Mið-Austurlöndum eru sagðir hafa reynt að sannfæra Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að gera ekki árásir gegn klerkastjórninni í Íran. Þeir vilja ekki auka á óöldina á svæðinu og segjast óttast afleiðingarnar sem fall klerkastjórnarinnar gæti haft.

Trump heitir íhlutun ef stjórnvöld hefja aftökur

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að grípa til afdráttarlausra aðgerða ef stjórnvöld í Íran hefja aftökur á handteknum mótmælendum. Trump hafði áður hótað ráðamönnum í Íran vegna ofbeldis gegn mótmælendum en áætlað er að yfir 2.500 manns hafi látist fram að þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×