Handbolti

Elliði svaraði fyrir slæman leik: „Skiptir meira máli að vinna en að ég spili vel“

Aron Guðmundsson skrifar
Elliði Snær í leik kvöldsins
Elliði Snær í leik kvöldsins Vísir/EPA

Elliði Snær Viðarsson var að vonum himinlifandi eftir stórsigur á Pólverjum á EM í gær. Eftir slakan leik í fyrstu umferð svaraði hann fyrir sig í dag og segir milliriðil nú hafinn hjá liðinu.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann öruggan átta marka sigur er liðið mætti Pólverjum í 2. umferð riðlakeppninnar á EM í handbolta í dag. Sigurinn kemur íslensku strákunum í kjörstöðu til að vinna riðilinn.

„Þetta var helvíti góður leikur á öllum sviðum. Við erum rosa ánægðir með þetta,“ sagði Elliði Snær í viðtali við Henry Birgi hjá Sýn eftir leik og aðspurður um stemninguna í stúkunni, sem íslenskir stuðningsmenn troðfylltu, sagði hann hana vera magnaða og gefa liðinu mikið.

„Strax í upphitun, þegar að við löbbuðum inn var allt í einu biluð stemning. Maður skoraði eitt mark í upphitun og það var bara byrjað að fagna. Það var geggjuð stemning hér í dag og sturla að vera á heimavelli hér í Kristianstad.“

Hversu mikla orku fáiði frá þessum áhorfendum?

„Bara endalausa. Við hefðum geta spilað í allan dag. Við vildum heldur ekkert mikið vera að fara inn í klefa eftir leik.“

Elliði átti ekki góðan leik í fyrstu umferð gegn Ítölum en svaraði vel fyrir sig í kvöld.

Hversu miklu máli skipti það fyrir þig?

„Skiptir meira máli að vinna en að ég spili vel. En auðvitað er það smá léttir að geta skorað á mótinu allavegana.“

Ísland er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína og mikilvægur framundan gegn Ungverjum í síðustu umferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn kemur.

„Það er núna úrslitaleikur í riðlinum. Milliriðillinn í raun hafinn. Það er bara næsti leikur, það er það sem skiptir máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×