Erlent

Þjóð­verjar snúa heim frá Græn­landi

Agnar Már Másson skrifar
Þýsku hermennirnir flugu með vél Icelandair til Íslands í dag.
Þýsku hermennirnir flugu með vél Icelandair til Íslands í dag. FlightRadar

Eftir aðeins tvo daga á Grænlandi snúa þýskir hermenn nú aftur heim af heræfingu en þeir millilentu á Íslandi síðdegis í dag. Talsmaður þýska hersins segir að hermennirnir hafi klárað könnunarferð sína. Fulltrúar íslensku Landhelgisgæslunnar verða um kyrrt í Grænlandi í bili, að sögn gæslunnar.

Samkvæmt heimildum þýska dagblaðsins Bild fengu hermennirnir skipanir um að yfirgefa Grænland snemma í morgun. 

Miðillinn að allir fimmtán þýsku hermennirnir sem sendir voru norður í vikunni hafi farið um borð í vél Icelandair, sem tók á loft í Nuuk rétt fyrir hádegi í dag og þeir lentu svo á Keflavíkurflugvelli kl. 16.30.

Þýskalandsher sendi svokallað „könnunarteymi“ til Grænlands í vikunni til að taka þátt í heræfingu ásamt hermönnum frá Hollandi, Bretlandi, Þýskalandi og Norðurlöndum að Íslandi undanskildu. Ísland sendi reyndar tvo fulltrúa Landhelgisgæslunnar á æfinguna á Grænlandi en þeir eru enn á Grænlandi, samkvæmt svörum Landhelgisgæslunnar til Vísis.

Frá 16. janúar, þegar þýsku hermennirnir mættu (degi of seint vegna veðurs) til Grænlands.Getty

Bild bendir enn fremur á að hernaðaryfirvöld hefðu í gær tilkynnt að þýsku hermennirnir myndu ílengjast á Grænlandi.

Aftur á móti er haft eftir talsmanni þýska hersins í frétt AA að niðurstöður könnunarferðarinnar væru „fullnægjandi“. Talsmaðurinn segir að sendiför hafi ekki verið aflýst, heldur hafi henni verið „lokið samkvæmt skipun.“

Þessi heræfing er haldin í skugga hótana Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að leggja undir sig Grænland, sem heyrir enn undir dönsku krúnuna. Trump varpaði í gær sprengju inn í Atlantshafsbandalagið (NATO) þegar hann boðaði tolla á átta aðildarríki sem studdu ekki innlimunaráform Bandaríkjastjórnar um Grænland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×