Fótbolti

Hörður Björg­vin tekinn af velli í hálf­leik í unnum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon færði sig frá Panathinaikos yfir til APO Levadiakos.
Hörður Björgvin Magnússon færði sig frá Panathinaikos yfir til APO Levadiakos. Getty/Giorgos Arapekos

Hörður Björgvin Magnússon og félagar í Levadiakos héldu sigurgöngu sinni áfram í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Levadiakos fór þá á útivöll og vann 3-1 sigur á Panetolikos.

Þetta var fjórði deildarsigur Levadiakos í röð og hann kemur liðinu upp í fjórða sæti deildarinnar.

Hörður Björgvin var í byrjunarliðinu hjá Levadiakos og spilaði fyrri hálfleikinn.

Íslenski miðvörðurinn var tekinn af velli í hálfleik en þá var leikurinn svo gott sem unninn enda Levadiakos 3-0 yfir.

Levadiakos fékk á sig mark í seinni hálfleik eftir að liðið missti Hörð úr miðri vörninni.

Hörður Björgvin hefur átt mjög góða innkomu í gríska liðið sem sést á því að Levadiakos er búið að vinna átta leiki og gera eitt jafntefli í þeim tíu deildarleikjum sem hann hefur spilað fyrir liðið á leiktíðinni.

Mörk Levadiakos skoruðu Ioannis Kosti (á 3. mínútu), Guillermo Balzi (á 10. mínútu) og Panagiotis Liagas (á 45. mínútu) en Balzi lagði upp tvö og átti því þátt í öllum þremur mörkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×