Enski boltinn

Sagður fá lengri líf­línu

Sindri Sverrisson skrifar
Thomas Frank gæti átt afar lítið eftir sem stjóri Tottenham.
Thomas Frank gæti átt afar lítið eftir sem stjóri Tottenham. Getty/Luke Walker

Staða hins danska Thomas Frank hjá Tottenham er afar veik en þó er talið að hann verði áfram við stjórnvölinn á morgun þegar liðið mætir Dortmund í Meistaradeild Evrópu.

Tottenham tapaði gegn fallbaráttuliði West Ham á laugardaginn og er aðeins í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, eftir 22 umferðir, og gæti færst niður í 15. sæti í kvöld. Liðið endaði í 17. sæti á síðustu leiktíð og lét þá Ange Postecoglou fara þrátt fyrir Evrópudeildarmeistaratitil.

Pressan á Frank hefur svo sífellt aukist þá sjö mánuði sem hann hefur stýrt Tottenham og samkvæmt BBC, Sky Sports og fleiri miðlum hefur stjórn félagsins nú velt upp þeim möguleika að skipta Dananum út. Verið sé að vega og meta aðra kosti í stöðunni.

Þrátt fyrir vandræði fyrr á leiktíðinni hefur Frank notið trausts en það virðist vera að þverra og sigurmark Callum Wilson fyrir West Ham á laugardaginn, í uppbótartíma, gæti reynst vendipunktur.

Sky Sports segir þó í dag að ekki sé búist við öðru en að Frank stýri Tottenham á morgun, í næstsíðustu umferð Meistaradeildar Evrópu þar sem Tottenham er í fínum málum, í 11. sæti af 36 liðum.

Ekki sé búið að taka neina endanlega ákvörðun um Frank og að langtímaáætlunin hafi alltaf verið sú að hann myndi leiða liðið í gegnum erfiða umbrotatíma hjá félaginu.

Baulað var á Frank eftir 2-1 tapið geng West Ham og hann mátti heyra kyrjað úr stúkunni: „Þú verður rekinn á morgun!“ en reyndi að bera sig vel á blaðamannafundi:

„Auðvitað hef ég átt betri tíma og ég skil að ég er við stjórnvölinn svo að ég ber sök hérna. Það er ekkert við því að segja. Svo lengi sem stuðningsmenn styðja leikmennina og gera allt sem þeir geta til að hvetja þá til dáða, og að við höldum áfram, þá er ekkert vandamál,“ sagði Frank.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×