Innlent

Hiti færist í leikinn: „Frægur karl með enga reynslu“

Jakob Bjarnar og Jón Þór Stefánsson skrifa
Skilaboð sem Heiða Björg á að hafa sent, þar sem hún hvetur fólk ótengt Samfylkingunni til að skrá sig í flokkinn, lýðræðisveislu, það geti svo skráð sig út aftur sér að kostnaðarlausu. Heiða kannast ekki við að hafa sent slík skilaboð.
Skilaboð sem Heiða Björg á að hafa sent, þar sem hún hvetur fólk ótengt Samfylkingunni til að skrá sig í flokkinn, lýðræðisveislu, það geti svo skráð sig út aftur sér að kostnaðarlausu. Heiða kannast ekki við að hafa sent slík skilaboð. vísir

Gríðarleg harka er að færast í prófkjörsbaráttuna í Samfylkingunni og kannski ekki seinna vænna. Þrjú þúsund manns hafa skráð sig í flokkinn en lokað var fyrir skráningar á miðnætti. Meint skilaboð frá Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra, þar sem hún fer fram á stuðning gegn frægum karli, eru í umferð. Heiða kannast ekki við að hafa sent slík skilaboð.

Eins og fólk ætti að vita etur Heiða kappi við Pétur H. Marteinsson athafnamann og fyrrverandi knattspyrnukappa um oddvitasætið og er aukin harka að færast í baráttuna.

Vísi hefur undir höndum skilaboð sem Heiða virðist hafa sent í gærkvöldi til ónefndrar konu sem er ótengd Samfylkingunni. Þar biðlar Heiða til viðkomandi um að skrá sig í Samfylkinguna, það sé ekkert mál og hægt sé að skrá sig út aftur viðkomandi algerlega að kostnaðarlausu. Í skilaboðunum kemur fram að Heiðu finnst þetta erfið barátta.

„Mér finnst þetta mjög erfið barátta þar sem karl með enga reynslu en færægur á að koma í stað mín. Ég óttast um okkar mál og áherslur.“

Og með fylgja hlýjar kveður.

Þegar Vísir bar þetta undir Heiðu Björgu, og vildi ræða efni skilaboðanna, bregður svo við að hún kannast ekki við að hafa sent umrædd skilaboð. Ekki náðist í Heiðu Björgu í síma en í svörum hennar í SMS-i til blaðamanns segist hún ekki hafa sent umrædd skilaboð.

Hún vísaði á Róbert Marshall aðstoðarmann sinn sem sagðist í samtali við Vísi ætla að kanna málið.

Skilaboðin eru svohljóðandi:

„Sæl kæra xxxx nú er prófkjör í Samfylkingu á laugardaginn og það er óvenju opið og mikið verið að smala fólki til þáttöku. Það er hægt að skrá sig til þátttöku þar til kl 12 að miðnætti fimmtudagskvölds með rafrænum skilríkjum. Þetta kostar ekkert og ef fólki vil getur það skrá sig úr félaginu aftur eftir helgina. Mér finnst þetta mjög erfið barátta þar sem karl með enga reynslu en færægur á að koma í stað mín. Ég óttast um okkar mál og áherslur. Mig langar því að biðja um þinn stuðning og sendi þér hlekk á skráningu í von um að þú takir þátt. Hlý kveða Heiða.“

Og með fylgir hlekkur á auðkenning.umsjá.is þar sem fólk gat skráð sig í flokkinn þar til á miðnætti í gær. Samkvæmt upplýsingum frá flokknum hefur fjölgað um 2897 manns í flokknum í aðdraganda prófkjörs. Nú eru  tæplega sjö þúsund manns á kjörskrá en voru áður um fjögur þúsund.

Man ekki en getur ekki útilokað

Heiða Björg var jafnframt spurð út í umrædd skilaboð á Pallborðinu á Vísi í dag. Þar sagðist hún ekki muna eftir því að hafa sent þau, en útilokaði það þó ekki.

„Ég nefnilega man ekki eftir að hafa sent þessi skilaboð, nei. En ég get náttúrulega ekki útilokað það. Ég er búin að senda nokkur skilaboð.“

Frægð Péturs, það að hann sé fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, finnst þér það hafa áhrif?

„Ég held að Pétur hafi sjálfur sagt að hann er að koma nýr inn í þetta, með enga reynslu. Mér finnst skrýtið ef flokkurinn velur það umfram konu sem er með mikla reynslu og hefur sýnt að hún getur náð miklum árangri. En það er auðvitað flokksins að velja.“

Þá bað hún fólk um að taka myndum sem þessum með fyrirvara.

Í Pallborðinu svaraði Pétur jafnframt fyrir skjáskot af skilaboðum sem einnig er í dreifingu á samfélagsmiðlum. Þar hvetur ótilgreindur einstaklingur þann sem fær skilaboðin til að taka þátt í prófkjörinu, og kjósa ákveðna frambjóðendur í efstu fimm sætin, en viðkomandi er beðinn um að setja Pétur í fyrsta sætið.

Pétur sagði umrædd skilaboð ekki vera á sínum vegum.

„Þetta er ekki frá mér komið. Alveg hundrað prósent. Ég hef alveg gefið það út að ég mun ekki gefa neina lista út.“

Neyðist til að smala

Þá sendi Heiða Björg önnur skilaboð þar sem hún segir að mikil smölun sé í gangi fyrir prófkjörið og því neyðist hún til að gera það sama. Í skilaboðunum segir að mótframbjóðandi hennar, Pétur, segi víst fólki að það geti skráð sig úr flokknum strax á sunnudag.

„Ég hef alveg skilning á því ef þér finnst það óþægilegt en þetta kostar ekkert og er ekki bindandi á neinn hátt. Sumir kalla þetta lýðræðisveislu,“ segir Heiða Björg í skilaboðunum sem sjá má að neðan. Heiða Björg sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gær að hún stæði ekki í smölun í flokkinn heldur legði hún áherslu á samtal við Samfylkingarfólk. Þó væri alltaf fagnaðarefni að bættist í hópinn.

Umræðuna um smölun má heyra snemma í viðtalinu.

Þau Heiða Björg og Pétur mættust í Pallborðinu á Vísi klukkan eitt og þar mun þetta eflaust bera á góma.

Hér má sjá Pallborðið í heild sinni.

Fréttin var uppfærð eftir að Heiða svaraði fyrir skilaboðin í Pallborðinu.


Tengdar fréttir

Pallborðið: Síðasta einvígið

Klukkan 13 mætast Heiða Björg Hilmisdóttir og Pétur Marteinsson, sem bæði sækjast eftir oddvitasæti Samfylkingarinnar í borginni, í Pallborðinu á Vísi. Þetta er í síðasta sinn sem oddvitaframbjóðendurnir mætast fyrir prófkjörið sem fer fram á morgun.

Baráttan um Samfylkinguna í borginni nálgast suðumark

Samfylkingin hefur samkvæmt síðustu alþingiskosningum og skoðanakönnunum verið stærsti flokkur Íslands á landsvísu. Eftir að Kristrún Frostadóttir formaður flokksins tók við stjórnartaumum virðist ekkert lát á vinsældunum hans. En hvað má ráða í komandi prófkjöri Samfylkingarinnar í borginni? Þar virðist ýmislegt rekast á annars horn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×