Innlent

Lög­reglan á Suður­landi rann­sakar gagnastuldinn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri á Suðurlandi.
Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri á Suðurlandi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lögreglustjórinn á suðurlandi segir rannsókn á meintum umfangsmiklum gagnastuldi úr kerfum sérstaks saksóknara hefjast á byrjunarreit. Gögn muni berast eftir helgi og þá geti rannsókn hafist af alvöru.

Hann staðfestir að honum hafi borist bréf frá Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara í gær þar sem embættinu á Suðurlandi var falin rannsókn á máli ráðgjafafyrirtækisins PPP sf (Pars Per Pars) sem hefur verið til umfjöllunar síðustu daga. Fyrrverandi lögreglumennirnir og starfsmenn hjá sérstökum saksóknara Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Hakur Gunnarsson, sem lést árið 2020, stofnuðu fyrirtækið á meðan þeir störfuðu fyrir embættið.

Fyrirtækið og einn eftirlifandi stofnenda Jón Óttar eru til rannsóknar fyrir að hafa stolið gögnum úr kerfum sérstaks saksóknara fyrir rúmum áratugi síðan. Ríkissaksóknari fer ekki rannsókn sakamála og því hefur lögregluembættinu á Suðurlandi verið fólgið að kanna málið.

„Þetta er alveg á byrjunarreit,“ segir Grímur Hergeirsson lögreglustjóri á Suðurlandi.

Rannsókn á málinu sé ekki byrjuð þar sem enn hafi ekki borist gögn frá embætti ríkissaksóknari en Grímur býst við því að þau berist eftir helgi og þá geti rannsóknin hafist.

„Við skoðum þetta á næstu dögum en ég er ekki kominn með neitt í hendurnar nema þetta bréf. við munum skoða þetta gaumgæfilega eftir helgi,“ segir Grímur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×