Viðskipti innlent

Ráðu­neytið ræður fjögur ís­lensk fjár­mála­fyrir­tæki vegna sölunnar á Ís­lands­banka

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kvika banki hf. mun bæði fara með hlutverk umsjónaraðila og söluaðila vegna fyrirhugaðs útboðs á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Ármann Þorvaldsson er forstjóri Kviku.
Kvika banki hf. mun bæði fara með hlutverk umsjónaraðila og söluaðila vegna fyrirhugaðs útboðs á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Ármann Þorvaldsson er forstjóri Kviku.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ráðið fjórar innlendar fjármálastofnanir sem söluaðila vegna fyrirhugaðs útboðs á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Í síðustu viku greindi ráðuneytið frá ráðningu fjögurra erlendra söluaðila vegna útboðsins en nú bætast Arctica Finance, Arion banki, Kvika banki og Landsbankinn í hópinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu, en í síðustu viku samþykkti Alþingi breytingar á lögum um ráðstöfun eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Lögin eiga að tryggja að við framkvæmd útboðsferlis vegna sölu á hlutum ríkisins í bankanum verði viðhöfð „hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi,“ líkt og það er orðað í tilkynningunni. Þá verði mikil áhersla lögð á að ferlið í heild sinni njóti trausts.

Sjá einnig: Salan á Íslandsbanka: Samið við fjóra erlenda söluaðila

Fjármálafyrirtækin fjögur munu ásamt þeim erlendu gegna hlutverki söluaðila í fyrirhuguðu útboði og er ráðning söluaðilanna hluti af undirbúningsvinnu sem nú er sögð langt á leið komin.

„Umsjónaraðilar útboðsins verða eins og áður hefur verið tilkynnt Barclays Bank Ireland PLC, Citigroup Global Markets Europe AG og Kvika banki hf. sem jafnframt verða söluaðilar ásamt því að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins auk utanumhalds tilboðsbóka,” segir ennfremur í tilkynningunni frá ráðuneytinu sem birt var á vef stjórnarráðsins í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×