Erlent

Vill gera Gasa að „frelsissvæði“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna í Katar í morgun.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna í Katar í morgun. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagðist í morgun vilja gera Gasaströndina að „frelsissvæði“. Það gæti gerst ef Bandaríkin myndu taka yfir stjórn svæðisins, eins og hann hefur áður talað um.

„Ég er með hugmyndir um Gasa sem ég held að séu mjög góðar,“ sagði Trump. „Gerum það að frelsissvæði. Leyfum Bandaríkjunum að koma að þessu og gerum það bara að frelsissvæði.“

Trump bætti við að hann yrði stoltur af því að gera Gasaströndina að frelsissvæði, samkvæmt frétt Washington Post, en hann fór þó ekki út í hvað „frelsissvæði“ er.

Trump sagði einnig að hann hefði séð loftmyndir af Gasaströndinni.

„Ég meina það er nánast ekki ein bygging standandi þarna. Það er ekki eins og þú sért að reyna að bjarga einhverju.“

Sjá einnig: Sturluðu mynd­skeiði af „Nýja-Gasa“ deilt á samfélagsmiðlum Trump

Þetta sagði Trump í Katar, þar sem hann er á ferðalagi um Mið-Austurlönd. Ráðamenn í Katar hafa spilað stóra rullu í því að bera skilaboð milli Ísraela og Hamas en Katarar lýstu yfir mikilli andstöðu við ummæli Trumps um að gera Gasaströndina að „Rivíeru Mið-Austurlanda“, eins og hann lagði til í febrúar.

Sjá einnig: Rivíerutal Trumps megi kalla etníska hreinsun

Trump sagði einnig í Katar í dag að „Gasa-vandamálið“ hefði aldrei verið leyst. Það þyrfti að taka á Hamas.

Ráðamenn í Ísrael hafa boðað umfangsmiklar aðgerðir á Gasaströndinni á næstu mánuðum og hefur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, sagt að svæðið verði hernumið sama hvað, hvort sem leiðtogar Hamas muni sleppa gíslum þeirra eða ekki.

Hann hefur einnig sagt að íbúar Gasastrandarinnar verði fluttir á brott, til að tryggja öryggi þeirra.

Undanfarna daga hafa tugir Palestínumanna fallið í loftárásum Ísraela. Heilbrigðisyfirvöld þar, sem stýrt er af Hamas, segja rúmlega áttatíu hafa fallið í árásum í gærkvöldi og í nótt. Svipað var upp á teningnum í fyrrinótt.


Tengdar fréttir

Alþjóðaglæpa­dómstóllinn lamaður vegna þvingana Bandaríkjanna

Yfirsaksóknari Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag kemst ekki inn í tölvupóstinn sinn og bankareikningar hans hafa verið frystir vegna refsiaðgerða Bandaríkjastjórnar. Félagasamtök hafa hætt að vinna með dómstólnum og starfsmenn hans eiga yfir höfði sér handtöku ef þeir ferðast til Bandaríkjanna.

Tugir sagðir liggja í valnum eftir loftárásir

Tugir eru sagðir liggja í valnum eftir loftárásir Ísraela í norðurhluta Gasastrandarinnar í gærkvöldi og í nótt. Forsvarsmenn indónesíska sjúkrahússins segja að minnsta kosti 22 börn og fimmtán konur meðal þeirra sem dóu.

Láta bandarískan gísl lausan

Hamasliðar tilkynntu í dag að þeir hygðust leysa Bandaríkjamanninn Edan Alexander úr haldi. Hann er síðasti eftirlifandi gíslinn í þeirra haldi með bandarískt ríkisfang en hann er búinn að vera í gíslingu á Gasaströndinni frá sjöunda október 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×