Innlent

Steinn verður reistur við og brúin yfir Mó­gils­á löguð

Árni Sæberg skrifar
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. Vísir/tómas

Viðgerð á brúnni yfir Mógilsá í Esjunni, hefst fimmtudaginn 22. maí. Sama dag verður gert við Stein, sem lagðist á hliðina í byrjun apríl.

Í fréttatilkynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur segir að brúin yfir Mógilsá við Fossalautir sé orðin þrjátíu ára gömul og illa farin. Áætlað sé að viðgerð á brúnni taki fjóra daga. Á meðan á viðgerðinni stendur verði hringleið frá brúnni að Steini lokað. Áfram verði hægt að fara upp að Steini og upp á Esjuna, eftir stígnum um Einarsmýri. Stefnt sé að því að viðgerð á brúnni verði lokið seint á sunnudag, 25. maí.

Ekki hægt að fylgjast með af öryggisástæðum

Samhliða þessu verði Steinn reistur við og festur í sessi. Tímasetning á þeirri framkvæmd muni ráðast af aðstæðum. Af öryggisástæðum verði ekki hægt að fylgjast með framkvæmdinni.

„Við minnum fólk á að fara að öllu með gát í Esjuhlíðum og nota merktar gönguleiðir. Með tilkomu nýrra stíga í Esjuhlíðum er bæði hægt að sækja á brattann og njóta þess að ganga þvert á hlíðina, í fallegu skóglendi. Við vonum að sem flest njóti útiverunnar á þessu fjölbreytta útivistarsvæði, á öllum árstímum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×