Innlent

Einn lést í brunanum á Hjarðar­haga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þrír fullorðnir karlmenn voru í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði.
Þrír fullorðnir karlmenn voru í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði.

Einn er látinn eftir eldinn sem kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi við Hjarðarhaga í Vesturbæ Reykjavíkur í morgun. Annar er alvarlega slasaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að slökkviliði hafi borist tilkynning um eldinn klukkan tíu mínútur yfir tíu í morgun.  Þrír voru í íbúðinni og voru hinir tveir fluttir á slysadeild. Annar þeirra er alvarlega slasaður. Þrír fullorðnir karlmenn voru í íbúðinni þegar eldurinn kom upp.

Mikill viðbúnaður var á vettvangi en vettvangsstjóri hjá slökkviliðinu tjáði fréttastofu í morgun að slíkt væri alltaf tilfellið ef tilkynningar bærust um eld í fjölbýlishúsi. 

Mynd frá vettvangi í morgun. Íbúðin var á Hjarðarhaga 48 sem er hluti af samstæðunni Hjarðarhaga 44-50.Vísir/Anton

Lögregla tók skýrslur af íbúum í húsinu sem lýstu háværri sprengingu og einkennandi lykt. Vernharð Guðnason, vettvangsstjóri hjá slökkviliðinu, sagði að um alvarlegt tilfelli hefði verið að ræða. Einn hinna þriggja hefðu verið við meðvitund og getað upplýst um að tveir til viðbótar væru í íbúðinni.

Að loknu slökkvistarfi og reykræstingu stigagangs og skoðunar á öðrum íbúðum í húsinu tók við eldsupptakarannsókn tæknideildar lögreglu.


Tengdar fréttir

Mjög alvarlegt tilfelli

Vettvangsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að eldur sem kom upp í blokk við Hjarðarhaga í Vesturbæ Reykjavíkur hafi verið mjög alvarlegt tilfelli. Þrír voru fluttir á slysadeild. Að minnsta kosti einn þeirra var með meðvitund.

Töluverður eldsvoði og þrír fluttir af vettvangi í sjúkrabíl

Þrír voru fluttir í sjúkrabíl af vettvangi eldsvoða í fjölbýlishúsi við Hjarðarhaga í Vesturbæ Reykjavíkur á ellefta tímanum í morgun. Um töluverðan eld var að ræða og sprakk rúða í íbúð á jarðhæð þar sem eldurinn kom upp. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×