Innlent

Þjónusta sérgreinalækna við börn nú án endur­gjalds

Lovísa Arnardóttir skrifar
Breytingin tók gildi í dag.
Breytingin tók gildi í dag. Vísir/Vilhelm

Frá og með deginum í dag er þjónusta sérgreinalækna við börn án endurgjalds, óháð því hvort fyrir liggi tilvísun frá heilsugæslu eða ekki. Reglugerð Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra þessa efnis tók gildi í dag en tilkynnt var í maí um að tilvísanakerfið fyrir börn yrði afnumið.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að tilvísanakerfið hafi tekið gildi 2017 en ljóst hafi verið að það hafi ekki skilað ætluðum tilgangi. Tilvísanakerfið var jafnframt tengt greiðsluþátttökukerfinu. Þannig greiddu börn með tilvísun frá heilsugæslu ekkert fyrir þjónustu þeirra en án tilvísunar var greiðsluþátttaka áskilin. 

Með breytingu á reglugerð nr. 694/2025 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur þessi tenging tilvísana og greiðsluþátttöku verið afnumin.

Ráðuneytið vekur þó athygli á því að þessi breyting útilokar ekki að sérgreinalæknar geti gert kröfu um tilvísanir vegna tiltekinna verkefna sem þeir sinna en það er óháð greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×