Erlent

Á níunda tug látin í hamfaraflóðum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mikil eyðilegging blasir við.
Mikil eyðilegging blasir við. AP/Julio Cortez

Tala látinna í hamfaraflóðum sem dunið hafa á Texas-ríki undanfarna eftir mikla og skyndilega vatnavexti hefur náð 81. Fleiri tuga manns er enn saknað og björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar standa í ströngu við að finna týnda ástvini.

Kerr-sýsla hefur farið einna verst út úr flóðunum en þar hækkaði vatnsborð Guadalupe-ár um rúma sex metra á innan við tveimur klukkustundum síðastliðinn föstudag. Þar, á bakka Guadalupe-ár, eru kristnar sumarbúðir stúlkna sem heita Camp Mystic. Ellefu stúlkna sem dvöldu í sumarbúðunum er enn saknað og eins starfsmanns.

New York Times greinir frá því að á meðal hinna látnu er menntaskólakennari og fjölskylda hans sem fóru í útilegu við bakka Guadalupe-ár. Þau komust ekki undan í tæka tíð þegar vatnavextirnir hófust. Kona á leið til vinnu í verslun Walmart lést einnig þegar hækkandi vatnsborðið gleypti bíl hennar.

Eins og fyrr segir er tuga manns enn saknað og stórt viðbragðsteymi björgunarsveita, lögreglumanna og sjálfboðaliða leitar að þeim sem enn er saknað í rústunum. Í gær var talsverð úrkoma á þeim svæðum sem verst hafa komið úr vatnavöxtunum en engin frekari flóð urðu.

28 þeirra látnu eru börn. Sum voru í sumarbúðum og önnur í útileguferðum við bakka árinnar. Mörg hundruð manns taka nú þátt í björgunarstarfi og enn er fólk fundið sem rígheldur sér á trjám eða flýtur á mubblum. Ólíklegra verður með hverri klukkustund að þeir sem fundnir eru séu á lífi.


Tengdar fréttir

Tuttugu og fimm stúlkna saknað úr sumarbúðum vegna flóða

Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu í alla nótt í Texas þar sem umfangsmesta flóð síðari ára hafa riðið yfir. Úrhellisrigning hafa valdið mikilli hækkun og fjölmargra er saknað. Sumarbúðir stelpna urðu einna verst fyrir flóðinu og er 25 stelpna saknað. 24 hið minnsta eru látnir og fleirra saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×