Erlent

Rússar gera um­fangs­mikla drónaárás á yfir 700 skot­mörk

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eldar slökktir í Kænugarði.
Eldar slökktir í Kænugarði. AP

Rússneski herinn gerði gríðarlega umfangsmiklar árásir á Úkraínu í nótt, að sögn Vólódimírs Selenskís Úkraínuforseta, gegn 741 skotmarki. Segir hann Rússa hafa notað 728 dróna og þrettán eldflaugar í árásinni.

Árásin var svo viðamikil að stjórnvöld í Póllandi virkjuðu flugher sinn og vélar bandalagsríkja til að tryggja lofthelgi landsins.

Selenskí sagði árásina til marks um afstöðu og áherslu Rússa, sem hefðu hafnað öllum friðarumleitunum síðustu missera. Hann sagði hana einnig sönnun þess að frekari refsiaðgerða væri þörf, sérstaklega gegn olíuiðnaði Rússa, sem hefði fjármagnað stríðsrekstur þeirra síðustu þrjú ár.

Hvatti hann þá sem vildu frið til að grípa til aðgerða.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á Evrópuþinginu í morgun að þessi „stærsta drónaárás átakanna“ til marks um ógnina sem enn steðjaði frá Rússlandi.

Hún ítrekaði að Evrópa gæti ekki reitt sig á að aðrir gripu til varna; Evrópuríkin þyrftu að sinna eigin vörnum.

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, sagði í ræðu á þýska þinginu að Þjóðverkjar myndu halda áfram stuðningi sínum við Úkraínu og sagðist hafa áhyggjur af því að það væri fullreynt að ná friðarsamningum við Rússa.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun heimsækja Norður-Kóreu um helgina en þarlend stjórnvöld hafa sent þúsundir hermanna til að taka þátt í hernaði Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×