Erlent

Beita dómara ICC refsiaðgerðum vegna Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Julia Demaree Nikhinson

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa tilkynnt að tveir dómarar við Alþjóðlega sakamáladómstólinn (ICC) verði beittir refsiaðgerðum. Er það vegna meintrar óvildar dómaranna í garð Ísrael og óréttmætra aðgerða, samkvæmt Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Aðgerðirnar beinast, samkvæmt upplýsingum á vef utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, að dómurunum Gocha Lordkipanidze frá Georgíu og Erdenebalsuren Damdin frá Mongólíu.

Eru þeir sagðir hafa tekið beinan þátt í því að rannsaka, handtaka og lögsækja ísraelska ríkisborgara, án samþykkis yfirvalda þar. Þá segir ennfremur að hvorki Bandaríkin né Ísrael séu aðilar að Rómarsamþykktinni um stofnun dómstólsins og því heyri Bandaríkjamenn og Ísraelar ekki undir hann.

Nánast öll önnur vestræn lýðræðisríki eru aðilar að Rómarsamþykktinni.

Rubio segir í yfirlýsingu að Bandaríkin muni standa gegn ofstæki dómara ICC og verjast misbeitingu valds þeirra og „augljósri vanvirðingu“ þeirra fyrir fullveldi Bandaríkjanna og Ísrael. Brugðist verði við þessum aðgerðum með áþreifanlegum afleiðingum fyrir dómarana.

Bandaríkjamenn hafa áður beitt starfsmenn dómstólsins refsiaðgerðum. Yfirsaksóknari ICC kemst ekki inn í tölvupóstinn sinn og þá hafa bankareikningar hans verið frystir og félagasamtök eru hætt að vinna með dómstólnum vegna þessara refsiaðgerða.

Þeim var beitt í febrúar eftir að dómarar við ICC gáfu út handtökuskipun á hendur Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, og Yoav Gallant, fyrrverandi varnarmálaráðherra.

Dómararnir tveir sem verið er að beita refsiaðgerðum greiddu á mánudaginn atkvæði með meirihluta dómara ICC um að fella ekki niður handtökuskipanirnar á hendur Netanjahú og Gallant og að halda áfram rannsóknum á meintum stríðsglæpum Ísraela á Gasaströndinni.

Bandaríkjamenn hafa nú beitt að minnsta kosti átta dómara og þrjá saksóknara refsiaðgerðum af þessu tagi.

AFP fréttaveitan vitnar í yfirlýsingu frá dómstólnum þar sem segir að um sé að ræða grófa árás á sjálfstæði óháðs dómstóls. Refsiaðgerðunum er hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×