Erlent

Þjónkun við Trump?: CBS leggur niður Late Show

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Late Night undir stjórn Colbert hefur notið mikilla vinsælda. Stjórnendur CBS segja ákvörðunina fjárhagslega.
Late Night undir stjórn Colbert hefur notið mikilla vinsælda. Stjórnendur CBS segja ákvörðunina fjárhagslega. Getty/Dimitros Kambouris

Þáttastjórnandinn Stephen Colbert greindi frá því í gærkvöldi að honum hefði verið tilkynnt á miðvikudaginn að stjórnendur CBS hefðu ákveðið að leggja niður kvöldþáttinn Late Show.

Colbert hefur stýrt þættinum í fimmtán ár og tók við af David Letterman, sem stýrði honum í yfir 20 ár.

Þáttastjórnandinn greindi áhorfendum í sjónvarpssal frá tíðindunum við upptökur á nýjasta þættinum. Áhorfendur brugðust illa við fregnunum og Colbert sagðist sama sinnis.

„Þetta er frábært starf,“ sagði hann. „Ég vildi óska að einhver annar væri að fá það. Og þetta er starf sem ég hlakka til að sinna með þessum bjánum næstu tíu mánuðina,“ sagði Colbert og vísaði þar til samstarfsmanna sinna sem hann sagðist afar þakklátur fyrir.

Þátturinn mun hverfa úr loftinu á næsta ári.

Fregnirnar hafa komið á óvart og þykja um margt grunsamlegar en þátturinn hefur notið mikilla vinsælda.

Margir hafa bent á að Colbert hafi um langt skeið verið einn af beittustu gagnrýnendum Donald Trump en eigendur Paramount, móðurfyrirtækis CBS, hafa unnið að því leynt og ljóst síðustu misseri að fá stjórnvöld til að leggja blessun sína yfir samruna Paramount og fjölmiðlafyrirtækisins Skydance.

Í þessu samhengi vekur athygli að fyrr í vikunni kallaði Colbert ákvörðun stjórnenda Paramount um að gera samkomulag við Trump í máli hans gegn fyrirtækinu „stórar, feitar mútur“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×