Erlent

„Hann stal henni“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Donald Trump segir Jeffrey Epstein hafa „stolið“ Virginiu Giuffre frá sér þegar hún vann á sveitaklúbbi Trump. Giuffre sakaði Epstein og Ghislain Maxwell um að hafa selt sig í mansal og brotið á sér kynferðislega.
Donald Trump segir Jeffrey Epstein hafa „stolið“ Virginiu Giuffre frá sér þegar hún vann á sveitaklúbbi Trump. Giuffre sakaði Epstein og Ghislain Maxwell um að hafa selt sig í mansal og brotið á sér kynferðislega. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Jeffrey Epstein hafa „stolið“ Virginiu Giuffre úr starfi hennar í heilsulind sveitaklúbbs Trump í Mar-a-Lago í Flórída. Trump segist hafa slitið sambandi sínu við Epstein sökum þessa.

Þetta kom fram í samtali Trump við blaðamenn um borð í forsetaþotunni Air Force One fyrr í kvöld. Trump sagði þar að Epstein hefði tvívegis krækt í starfsmenn frá heilsulindinni í byrjun aldar, þar á meðal Giuffre.

Virginia Giuffre steig fram árið 2021 og sakaði Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell um mansal og sakaði Epstein, Andrés prins og aðra menn um að hafa nauðgað sér á heimili Epstein frá því hún var sautján ára gömul. 

Málið vakti heimsathygli 2021, leiddi til þess að Andrés var sviptur titlum sínum og lauk með samkomulagi milli Andrésar og Giuffre árið 2022. Giuffre tók eigið líf í apríl á þessu ári, aðeins 41 árs gömul.

„Við viljum ekki að þú takir fólkið okkar“

Á mánudag sagðist Trump hafi slitið sambandi sínu við Jeffrey Epstein, þáverandi vin sinn, um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar vegna þess að „hann stal fólki sem vann fyrir mig“ eftir að Trump hafði varað hann við því að gera það ekki.

Trump var spurður í forsetaþotunni í dag hvort starfsmennirnir sem Epstein réði hefðu verið ungar konur og svaraði forsetinn svo: „Ég vil ekki segja það, en allir vita hvaða fólk það var sem var tekið.“

„Fólkið var tekið úr heilsulindinni og ráðið af honum,“ sagði Trump um Epstein.

„Þegar ég frétti af þessu sagði ég við hann, ég sagði: ,Hlustaðu, við viljum ekki að þú takir fólkið okkar.' Hvort sem það var úr heilsulindinni eða ekki,“ sagði Trump um samskipti sín við Trump.

Epstein hafi hlustað á hann í fyrstu.

„Og ekki löngu síðar gerði hann það aftur. Og ég sagði: ,Burt með þig',“ sagði Trump við blaðamennina.

Trump var þá spurður hvort Virginia Giuffre hefði verið önnur hinna tveggja. Giuffre hafði áður greint frá því að hún hefði verið að vinna í heilsulindinni þegar Ghislaine Maxwell réði hana til Epstein.

„Ég veit það ekki, ég held að hún hafi unnið í heilsulindinni, ég held að hún hafi verið einn þeirra,“ svaraði Trump og bætti svo við: „Hann stal henni.“

„Vel á minnst, hún kvartaði ekkert undan okkur, eins og þið vitið, ekki neitt,“ sagði forsetinn síðan um heilsulindina í sveitaklúbbnum.


Tengdar fréttir

Maxwell biðlar til Hæstaréttar

Ghislaine Maxwell, vinkona Jeffrey Epstein sem var dæmd í 20 ára fangelsi fyrir mansal og fleiri brot, hefur farið þess á leit við Hæstarétt Bandaríkjanna að dóminum yfir henni verði snúið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×