Viðskipti innlent

Þota Play komin úr við­gerð eftir skemmdir vegna hagléls

Agnar Már Másson skrifar
Nefið á Play-vélinni skemmdist verulega.
Nefið á Play-vélinni skemmdist verulega. Vísir/Vilhelm

Flugvél Play sem skemmdist ill í hagléli yfir Póllandi í byrjun mánaðar er komin úr viðgerð í Katowice. Þannig nýtast níu af tíu vélum flugfélagsins en tíunda vélin er enn í viðgerð, sem hefru tafist vegna langrar biðar eftir varahlutum.

Í byrjun mánaðar var flugvél Play, sem var í leiguflugi fyrir pólska ferðaskrifstofu, snúið við til lendingar skömmu eftir flugtak frá Katowice í Póllandi eftir að hafa lent í hagléli sem olli töluverðum skemmdum, aðallega á nefi vélarinnar. Þotan var þá á leið til Egyptalands.

Vélin var flutt í skýli á flugvellinum í Póllandi þar sem hún var til skoðunar og viðgerðar en nú er þeirri viðgerð lokið að því er Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, greinir frá.

Flugvélin var í leiguflugi fyrir pólsku ferðaskrifstofuna SkyUp sem selur sólarlandaferðir frá Póllandi til Krítar.  Áhöfnin um borð var íslensk en farþegar að mestu Pólverjar.

Önnur vél hjá Play hefur ekki verið í nýtingu þar sem hún hefir verið í viðgerð í allnokkra mánuði. Birgir segir að bið eftir varahlutum hafi valdið töfum á viðgerðum á henni. Í afkomuviðvörun frá Play sem send var út í síðustu viku var greint frá því að tekjutap vegna þeirrar vélar næmi 1,1 milljón dala eða um 135 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×