Innlent

Aukið við­bragð í öllum deildum lög­reglu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stærsta helgi ársins í Vestmannaeyjum er að renna upp.
Stærsta helgi ársins í Vestmannaeyjum er að renna upp. Vísir/Vilhelm

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum segir embættið undir allt búið fyrir þjóðhátíð í Eyjum, sem hefst formlega á morgun. Viðbragð hefur verið aukið í öllum deildum lögreglu. 

„Við erum með aukið viðbragð í rannsóknardeild, við erum með styrkingu í almennri deild, bæði á dag- og næturvöktum. Við erum með sérstakt skipulagt fíkniefnaeftirlit og leitarhunda. Svo erum við líka með styrkingu frá sérsveit,“ segir Arndís Bára Ingimarsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum í samtali við fréttastofu. 

„Við erum mjög vel mönnuð og fær í flestan sjó.“

Verið sé að leggja lokahönd á undirbúning fyrir hátíðina. Þjóðhátíð verður formlega sett á morgun en þeir allra hörðustu taka forskot á sæluna á húkkaraballinu í kvöld. Sem fyrr er búist við mörg þúsund gestum en í fyrra sóttu á bilinu fimmtán til átján þúsund manns eyjuna heim. 

Gul viðvörun tekur gildi á föstudagskvöld og veðurfræðingar spá roki og rigningu stóran hluta helgarinnar. Arndís segir lögreglu vel undir veðrið búin. 

„Við erum með áætlun sem við unnum með þjóðhátíðarnefnd og Vestmannaeyjabæ. Ef það kemur til þess að það þarf að hleypa þjóðhátíðargestum inn í mannvirki Vestmannaeyjabæjar. Og það er hægt að gera það með mjög skjótum fyrirvara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×