Innlent

Sendi­herra á Ís­landi á grund­velli mis­skilnings

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Það er stutt í grínið hjá næsta sendiherra Bandaríkjanna.
Það er stutt í grínið hjá næsta sendiherra Bandaríkjanna. Getty

Billy Long, sem er að öllum líkindum næsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ýjar að því á samfélagsmiðlum að verið sé að senda hann til Íslands fyrir mistök. Þó er líklega um orðagrín að ræða en hann segist hafa beðið Trump um að fá að ganga til liðs við Bandarísku innflytjendastofnunina ICE en Trump hafi misheyrt það sem „Iceland.“

Billy Long greindi frá því á samfélagsmiðlum í gær að hann hefði verið tilnefndur sem næsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Honum var fengið starfið samdægurs og honum var vikið úr stöðu sinni sem ríkisskattstjóri Bandaríkjanna eftir aðeins tvo mánuði í embætti. Það vakti furðu á sínum tíma að hann hefði yfirhöfuð verið skipaður í embættið en hann hafði til þess enga viðeigandi reynslu.

Hann sat í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í tólf ár áður en hann varð ríkisskattstjóri en þar áður átti hann langan feril sem uppboðsþulur, fasteignasali og útvarpsmaður.

Í fréttum vestanhafs var greint frá því í gær að Dean Cain, leikari sem þekktastur er fyrir að hafa farið með hlutverk Ofurmennisins í þáttunum Lois and Clark, hafi ákveðið að ganga til liðs við Innflytjendastofnun Bandaríkjanna sem þar í landi er iðulega kölluð skammstöfuninni ICE.

„Ég sá að fyrrum Superman-leikarinn Dean Cain sagðist ætla að ganga til liðs við ICE og ég varð alveg æstur og hugsaði að ég myndi gera slíkt hið sama. Þannig að ég hringdi í Donald Trump í gærkvöldi og sagði honum að ég vildi ganga til liðs við ICE og ég held að hann hafi haldið að ég hefði sagt Iceland. Nú, jæja,“ skrifaði Long í færslu á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×