Viðskipti innlent

Hvað þurfum við að eiga mikið til að geta hætt að vinna?

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Björn Berg Gunnarsson svarar spurningum lesenda á Vísi. 
Björn Berg Gunnarsson svarar spurningum lesenda á Vísi.  Vísir/Vilhelm

45 ára kona spyr: Sæll Björn. Við hjónin erum 45 ára og 55 ára og langar að geta bæði hætt að vinna eftir 10-15 ár. En við vitum ekki hvernig við reiknum út hvað við þurfum að eiga mikið til að það sé raunhæft.

45 ára kona spyr:

Sæll Björn. Við hjónin erum 45 ára og 55 ára og langar að geta bæði hætt að vinna eftir 10-15 ár. En við vitum ekki hvernig við reiknum út hvað við þurfum að eiga mikið til að það sé raunhæft.

Mér þykir svo merkilegt að það er engin umræða um þetta í vinahópunum okkar. Annað hvort eru jafnaldrar okkar lítið að hugsa um þetta eða eru að forðast það. Hvernig reiknum við út hvað við þurfum að eiga mikið? Við erum skuldug en erum markvisst að greiða niður skuldir með snjóbolta aðferðinni.

Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi ætlar að svara spurningum frá lesendum Vísis þar sem lesendum gefst kostur á að spyrja hann spurninga sem tengjast fjármálum, fjárfestingum og öðru. Sendu honum spurningu neðst í greininni.

Takk fyrir áhugaverða spurningu. Það er sannarlega of lítið rætt um þessi mál og ykkar vinahópar er tæplega þeir einu sem forðast umræðuna. Því getur fylgt kvíði og óþægindi að skipuleggja fjármálin en ef það er ekki gert tekur enn verra við, afkomukvíði. Ef við ætlum að geta haft það þokkalegt á lífeyrisaldri, leyft okkur einhvern sveigjanleika og gert sem mest úr hverri krónu verðum við að bíta á jaxlinn og spyrja akkúrat þeirrar spurningar sem þú berð hér upp.

Lífeyrismál er í raun annað heiti yfir persónuleg fjármál á lífeyrisaldri og persónuleg fjármál eru einmitt það, persónleg. Því er ekki hægt að fullyrða að sama fjárhæð dugi eða henti öllum, en ef við vöndum okkur hvert og eitt getum við þó svarað spurningunni og fundið út þá tölu sem vantar. Ég skal sýna þér hvernig þú getur farið að því, með því að stilla upp dæmi.

Áætlum útgjaldahliðina

Fyrsta skrefið er að áætla rekstrarkostnað heimilisins, eins og við viljum að hann verði á lífeyrisaldri. Í sófanum heima ræðið þið, með blað og penna við hönd, um þau útgjöld sem nauðsynleg eru til að komast sem og þau sem þið viljið geta leyft ykkur að auki. Sem innlegg í þá vinnu má nefna að miðgildi útgjalda barnlausra hjóna á Íslandi nemur um 323 þ.kr. á mánuði auk kostnaðar við húsnæði. Í okkar dæmi skulum við reikna með 250 þ.kr. í greiðslubyrði lána og annan húsnæðiskostnað. Ef við viljum eyða hærri fjárhæðum en helmingur hjóna hér á landi bætum við þeirri fjárhæð við. Eigum við að segja 200 þ.kr.?

Nú höfum við sett okkur markmið um útgjöld og hálft bókhaldið er klárt:

Útgjöld: 773 þ.kr. á mánuði

Tekjurnar

Nú lítum við á þær tekjur sem stefnir í að taki við af launum. Með rafrænum skilríkjum farið þið inn á vef ykkar lífeyrissjóðs. Þar fáið þið aðgengi að Lífeyrisgáttinni, en hún sýnir ykkur þau réttindi sem þegar hafa safnast og hvernig þau birtast sem mánaðarlegar greiðslur frá 65, 67 og 70 ára aldri. Til að sjá væntanlegar greiðslur frá öðrum tímapunkti, t.d. við sextugt, þarf að skrá sig inn á vefsíðu hvers og eins sjóðs.

Þetta látum við duga fyrir þá sjóði sem ekki er lengur greitt í en við framreiknum réttindi okkar sjóðs í þar til gerðri reiknivél. Ef illa gengur að sækja þessi gögn á starfsfólk sjóðanna auðvelt með að aðstoða.

Nú veist þú hvaða ellilífeyristekjur þið komið til með að hafa, en athugaðu að þú gætir átt meiri lífeyri, sem ekki sést í Lífeyrisgáttinni. Þannig safna sjóðfélagar í Almenna lífeyrissjóðnum, Frjálsa, Íslenska og Lífsverki séreignarsparnaði með skylduiðgjaldi, sem ekki er viðbótarlífeyrissparnaður. Í öðrum sjóðum gætir þú svo hafa safnað tilgreindri séreign, ef þú skráðir þig í hana. Lestu þér til um ólíkar tegundir séreignarsparnaðar hér.

Hvað vantar upp á?

Gefum okkur að þið ætlið að fara tiltölulega snemma á eftirlaun og samanlagðar ellilífeyrisgreiðslur til ykkar komi til með að nema 600 þ.kr. eftir skatt. Þá vantar okkur 173 þ.kr. svo dæmið gangi upp.

Útgjöld: 773 þ.kr.

Ellilífeyrir: 600 þ.kr.

Nú mæli ég með að dokað sé við. Hve lengi viljum við áætla að þetta bil sé brúað? Útgjöld okkar geta breyst með aldrinum og að jafnaði dregur töluvert úr þeim þegar fólk er komið yfir sjötugt. Það er því ekki óeðlilegt að við grípum til hugtaksins „á meðan við höfum heilsu til“ og reiknum með meiri útgjöldum fram að t.d. 75 ára aldri og minni útgjöldum eftir það. Þetta hjálpar okkur við næsta skref, því nú þurfum við að skipuleggja hvernig gengið verður á eignir.

Við byrjum á viðbótarlífeyrissparnaði. Þar sem þið eruð skuldug gef ég mér að þið látið leggja sparnaðinn inn á húsnæðislánið ykkar í hverjum mánuði. Lægri skuldir draga úr áhættu og tekjuþörf og því er um að gera að nýta skattfrelsið sem ráðstöfuninni fylgir. Ef þið hafið þó safnað viðbótarlífeyri samviskusamlega í gegnum tíðina getur hann nýst við að lækka skuldir enn frekar eða sem mánaðarlegar tekjur. Nú skulum við reikna með að þið hafið fram til þessa safnað 15 milljóna króna viðbótarlífeyri. Ef hann ber 5% vexti og er tekinn út í 2. skattþrepi á 15 árum jafngildir það um 73 þ.kr. á mánuði, en þá vantar okkur enn 100 þ.kr. upp á að bókhaldið gangi upp.

Útgjöld: 773 þ.kr.

Ellilífeyrir: 600 þ.kr.

Viðbótarlífeyrir: 73 þ.kr.

Svona haldið þið áfram vinnunni. Þær tekjur sem upp á vantar þarf að sækja í eignir. Þar gæti til dæmis verið um að ræða arf eða að flutt verði úr dýrara húsnæði í ódýrara. En þið getið líka safnað fyrir því. Til þess að geta sótt 100 þ.kr. á mánuði í 15 ár þurfum við sennilega að safna um 13 milljónum króna. Því gætuð þið náð á 10 árum með því að leggja fyrir um 84 þ.kr. á mánuði eða á 15 árum með um 49 þ.kr. sparnaði. Notaðu tekju- og útgjaldareiknivélina til að auðvelda þér þessa vinnu.

Útgjöld: 773 þ.kr.

Ellilífeyrir: 600 þ.kr.

Viðbótarlífeyrir: 73 þ.kr.

Annar sparnaður: 100 þ.kr.

Hvað ef dæmið gengur ekki upp?

Ef þessir útreikningar stemma ekki er að sjálfsögðu mikilvægt að vita það í dag og því er þessi æfing vel fyrirhafnarinnar virði. Þá þurfum við að breyta væntingum okkar um lífeyrisaldurinn og meta hvort draga þurfi úr útgjöldum, vinna lengur, sinna hlutastarfi samhliða lífeyristöku eða jafnvel selja eignir fyrr en til stóð.

Ég held að það sé kominn tími á þessa umræðu í vinahópunum, er það ekki?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×