Viðskipti innlent

Birta nýja á­kvörðun um stýri­vexti í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar.
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Vísir/Vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun tilkynna um vaxtaákvörðun sína klukkan hálf níu í dag, en um er að ræða fyrstu ákvörðun nefndarinnar eftir sumarfrí.

Stýrivextir bankans standa nú í 7,5 prósent en nefndin lækkaði síðast vextina nokkuð óvænt úr 7,75 prósentum í 7,5 prósent í maí.

Greiningardeild Landsbankans spáði því í síðustu viku að peningastefnunefnd myndi nú gera hlé á vaxtalækkunarferlinu, halda stýrivöxtum óbreyttum og að þeir muni raunar ekki lækka meira á árinu.

Nefndin hefur lækkað vexti á síðustu fimm fundum en í ljósi „þrálátrar verðbólgu og kröftugrar eftirspurnar“ – líkt og greiningardeildin komst að orði – er talið að hún staldri við í bili.

Stýrivextir standa nú í 7,5 prósentum og ef tekið er mið af liðinni verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,5 prósentum. Hagstofan birtir verðbólgumælingu ágústmánaðar í þarnæstu viku og spáir greiningardeild Landsbankans því að verðbólga verði óbreytt frá því í júlí, 4,0 prósent.

Samhliða síðustu vaxtaákvörðun birti peningastefnunefnd yfirlýsingu þar sem kom fram að ekki hefðu skapast aðstæður til að hægt væri að slaka á raunvaxtastiginu. Frekari skref til lækkunar vaxta væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×