Sport

Litla systir keppir nú líka fyrir lands­liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Johanna og Armand Duplantis verða bæði fulltrúar Svía í baráttunni við Finna um helgina.
Johanna og Armand Duplantis verða bæði fulltrúar Svía í baráttunni við Finna um helgina. GEtty/Maja Hitij

Armand Duplantis, sem slegið hefur heimsmetið í stangarstökki þrettán sinnum á ferlinum, verður í liði með Jóhönnu litlu systur sinni í frjálsíþróttakeppni um helgina.

Armand er 25 ára gamall og er Svíinn ein skærasta stjarna frjálsíþróttaheimsins. Johanna systir hans er 22 ára og öllu minna þekkt en nú ætla þau að sameina krafta sína fyrir sænska landsliðið.

Um helgina er nefnilega hin svokallaða Finnkampen, þar sem Svíþjóð og Finnland etja kappi í árlegri frjálsíþróttakeppni, og fer mótið fram í Stokkhólmi.

Þetta verður í fyrsta sinn sem að Johanna klæðist sænska landsliðsbúningnum en hún er vissulega ekki alveg á sama stalli og bróðir hennar. Hún setti engu að síður nýtt persónulegt met í Eugene í Oregon í Bandaríkjunum í júní, þegar hún stökk yfir 4,39 metra.

Armand bætti heimsmetið sitt enn einu sinni fyrr í þessum mánuði, þegar hann fór yfir 6,29 metra á Grand Prix mótinu í Ungverjalandi, eftir að hafa farið yfir 6,28 metra á Demantamótinu í Stokkhólmi í júní.

Hann sló heimsmetið fyrst í febrúar árið 2020, þegar hann fór yfir 6,17 metra, en íþróttafólk fær allt að 100.000 Bandaríkjadali í bónus auk sérstakra mótsverðlauna fyrir hvert heimsmet sem það setur á mótum viðurkenndum af alþjóða frjálsíþróttasambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×