Innlent

Eitt kyn­ferðis­brot til­kynnt til lög­reglu eftir Þjóð­há­tíð

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fjöldi fólks safnast saman í brekkunni í Herjólfsdal ár hvert um Verslunarmannahelgina.
Fjöldi fólks safnast saman í brekkunni í Herjólfsdal ár hvert um Verslunarmannahelgina. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni í Vestmannaeyjum hefur borist ein tilkynning um meint kynferðisbrot sem átti sér stað í umdæmi hennar á meðan Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum stóð yfir um verslunarmannahelgina.

Þetta staðfestir Arndís Bára Ingimarsdóttir, settur lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, í svari við fyrirspurn fréttastofu. Líkt og greint var frá nokkrum dögum eftir lok hátíðarinnar vildi lögregluembættið ekki gefa upp fjölda tilkynninga um kynferðisbrot fyrr en búið væri að tryggja rannsóknarhagsmuni.

„Lögreglan veitir ekki upplýsingar um brot fyrr en búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni og á það við um öll brot,“ segir Arndís Bára.

Hún segir lögregluembættið muni halda áfram að taka þátt í forvarnarverkefnum sem tengjast hátíðinni. Til að mynda er átak lögreglunnar, ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar sem nefnist „Góða skemmtun.“ Þá hafi einnig verið útbúið ýmiss konar forvarnarefni sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum og á skjám í Herjólfsdal.

„Þjóðhátíðarnefnd er einnig með sitt eigið forvarnarverkefni sem kallast „Er allt í lagi?“ og hefur lögreglan stutt við það verkefni. Mun lögreglan í Vestmannaeyjum áfram taka þátt og styðja þessi verkefni,“ segir Arndís.


Tengdar fréttir

Fimm líkamsárásir í Vestmannaeyjum

Lögreglunni í Vestmannaeyjum bárust tilkynningar um fimm líkamsárásir. Einn veittist að lögreglumanni og var handtekinn en viðkomandi var með kylfu og hnúajárn í fórum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×