Neytendur

Dældi dísil á bensín­bíl en fær kostnaðinn endur­greiddan

Atli Ísleifsson skrifar
Kærunefndin var sammála viðskiptavininum um að upplýsingar bílaleigunnar og merkingar hafi ekki verið nægilega skýrar um að bensínbíl væri að ræða. Myndin er úr safni.
Kærunefndin var sammála viðskiptavininum um að upplýsingar bílaleigunnar og merkingar hafi ekki verið nægilega skýrar um að bensínbíl væri að ræða. Myndin er úr safni. Getty

Bílaleigu á Íslandi hefur verið gert að endurgreiða viðskiptavini sínum tæpa hálfa milljón króna í kjölfar þess að hafa rukkað hann um ýmsan kostnað í kjölfar þess að hann hafði fyrir dælt dísil á bílaleigubílinn sem knúinn var bensíni. Ástæðan er að upplýsingar og merkingar hafi ekki verið nægilega skýrar um að bensínbíl væri að ræða.

Þetta er niðurstaða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem kvað upp úrskurð sinn í málinu fyrr í vikunni, en það var viðskiptavinurinn sem kærði málið til nefndarinnar.

Viðskiptavinurinn krafðist endurgreiðslu úr hendi bílaleigunnar á greiddum kostnaði vegna vegaaðstoðar að fjárhæð 101 þúsund króna og 317 þúsund króna vegna flutnings bílaleigubíla. Þá var einnig farið fram á endurgreiðslu á 421 evru vegna viðgerðar á bílaleigubílnum.

Í úrskurðinum kemur fram að viðskiptavinurinn hafi tekið bílinn á leigu frá 18. desember 2024 til 3. janúar á þessu ári og greiddi fyrir það 2.188 evrur fyrir sem samsvarar um 315 þúsund krónur. Inni í verðinu var það sem kallað er „silfurtrygging“, barnasessa og nagladekk.

Þurfti vegaaðstoð

Tveimur dögum eftir að hafa fengið bílinn í hendurnar dældi viðskiptavinurinn díseleldsneyti á bílinn í stað bensíns. Bíllinn var þá orðinn óökuhæfur og tilkynnti viðskiptavinurinn málið þegar í stað til bílaleigunnar og fékk þær upplýsingar að óska eftir vegaaðstoð sem hann og gerði. Viðskiptavinurinn greiddi þá 101 þúsund króna fyrir að láta dæla dísileldsneytinu upp úr bílnum.

Fram kemur að ekki hafi reynst unnt að koma bílnum af stað og var viðskiptavininum boðið af bílaleigunni að skipta um bíl. Þá var viðskiptavinum gert að greiða 600 þúsund króna tryggingargjald vegna bilunarinnar, en að endurgreiðslan myndi ráðast af endanlegu mati á tjóni bílaleigunnar.

Viðskiptavinurinn þurfti einnig að borga 317 þúsund krónur fyrir flutning á hinum bilaða bíl frá bensínstöðinni og á starfsstöð bílaleigunnar og síðan flutning á öðrum bílaleigubíl bílaleigunnar til baka. Eftir skoðun og lagfæringu bílaleigunnar á bílnum var um 550 þúsund krónum af tryggingagjaldinu endurgreitt til viðskiptavinarins en eftir stóðu um sextíu þúsund krónur sem lentu á viðskiptavininum, 421 evra.

Ágreiningur í málinu sneri að því hvor ætti að bera greiddan kostnað vegna afdælingar eldsneytisins og flutnings bílaleigubílanna sem og greiðslukröfu bílaleigunnar vegna viðgerðarinnar.

Allt benti til að um dísilbíl væri að ræða

Við meðferð málsins vísaði viðskiptavinurinn til þess að við afhendingu bílaleigubílsins hafi honum ekki verið veittar upplýsingar um hvers konar eldsneyti bíllinn gengi fyrir. Engar merkingar hafi verið á eldsneytisloki bílsins sem sýndu að um bensínbíl væri að ræða og þá hafi í handbók bílsins – sem var á frönsku – verið umfjöllun á tveimur stöðum um viðhald á díselbílvél.

Viðskiptavinurinn hafi þannig talið að um dísilbíl verið að ræða og lagði hann fram ljósmyndir, myndbönd og gögn máli sínu til stuðnings.

Lögðu fram mynd af eldsneysisloki annars bíls

Kærunefndin bað við meðferð málsins bílaleiguna um að leggja fram gögn sem sýndu fram á að viðskiptavininum hafi sannanlega verið veittar upplýsingar um hvaða eldsneyti bíllinn gengi fyrir. Í byrjun þessa mánaðar lagði bílaleigan svo fram ljósmynd af eldsneytisloki bíls þar sem fram kemur hver eldsneytisgjafi hans sé sem og skjáskot af vefsíðu sinni þar sem sýni almennar upplýsingar um bíla bílaleigunnar.

„Þegar sú ljósmynd sem [bílaleigan] lagði fram með kvörtun sinni er borin saman við þá sem [viðskiptavinurinn] sendi nefndinni þykir ljóst að ekki er um sömu bifreið að ræða enda er litur bifreiðanna ekki sá sami. Þá verður ekki ráðið af skjáskotinu hvaða eldsneytisgjafi hinnar umþrættu bifreiðar er en við reit sem tilgreindur er sem „fuel“ stendur aðeins að bifreiðin sé „hybrid“,“ segir í úrskurðinum.

Var það mat kærunefndarinnar að bílaleigan hafi ekki sýnt fram á að viðskiptavinurinn hafi verið upplýstur um tegund eldsneytisgjafa bílaleigubílsins. Var það því niðurstaða kærunefndarinnar að bílaleigan ætti að endurgreiða viðskiptavininum vegna vegaaðstoðarinnar, flutnings bílanna og viðgerðar á bílnum, samtals 479 þúsund krónur.

Í málinu var einnig deilt um dekk bílsins, en viðskiptavinurinn fór fram á skaðabætur og vildi meina að þau væru illa skrúfuð á og bíllinn því óöruggur. Sagði viðskiptavinurinn að starfsmaður bílaleigunnar hafi greint frá þessu við afhendingu, en í úrskurði kærunefndarinnar segir að viðskiptavinurinn hafi ekki lagt fram nein gögn þessu til stuðnings og var þeirri kröfu því hafnað.


Tengdar fréttir

Sýnis­hornið of ólíkt borðplötunni sem skilaði sér heim

Viðskiptavinur sem keypti borðplötu úr svokölluðum náttúrusteini skal vera heimilt að rifta kaupunum þar sem sýnishornið sem kaupin byggðu á hafi verið of ólíkt borðplötunni sem skilaði sér heim. Í borðplötunni hafi verið fjöldi áberandi ryðbrúnna slikja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×