Innlent

Á­lagning aldrei hærri: Eldsneytisverð hefði átt að lækka enn frekar

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Kílómetragjaldið tók gildi um áramótin.
Kílómetragjaldið tók gildi um áramótin. vísir/anton brink

Álagning olíufélaganna hefur aldrei verið hærri en núna. Eldsneytisverð lækkaði um tæplega 97 krónur við ármótin þegar kílómetragjaldið tók gildi sem er í samræmi við væntingar Alþýðusambandsins. Eldsneytisverð hefði þó mátt lækka enn frekar að mati ASÍ. 

Þetta segir Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningarsviðs ASÍ, í samtali við fréttastofu. 

„Ef við horfum yfir olíuverðið yfir lengri tíma, óháð þessum breytingum, sjáum við vísbendingar um það að álagningin hafi lækkað á tímabilinu 2018 til 2021,“ segir Róbert sem tekur fram að álagningin hafi ekki tekið kipp við það að kílómetragjaldið tók gildi heldur hafi álagningin verið að aukast jafnt og þétt.

„Á síðustu misserum hefur heimsmarkaðsverð lækkað og verið hagfelld þróun þar á. Gengi krónunnar á tímabili var líka að styrkjast þó nokkuð. Yfir lengra tímabil hafa þessar breytingar ekki skilað sér í lækkun á smásöluverðinu.“

Hann segir að miðað við þessar forsendur ætti álagningin í raun að lækka og smásöluverð að lækka en það hefur ekki verið þróunin.

„Við fylgjumst náið með þessu. Vísbendingar út frá þeim gögnum sem við erum að skoða benda til þess að olíuverð gæti verið enn lægra en það er núna. Miðað við þróun á heimsmarkaði og þróun á gengi krónunnar þá teldum við að það væri innistæða fyrir meiri lækkunum en sem nemur gjaldabreytingum sem urðu um áramótin.“

Samkvæmt nýrri samantekt ASÍ leiðir breytingin með kílómetragjaldinu til hærri rekstrarkostnaðar smærri og sparneyttari bifreiða á sama tíma og það dregur úr kostnaði stærri bifreiða. 

 „Það eru ólík sjónarmið sem snúa að þessu. Við höfum gagnrýnt að rekstrarkostnaður aukist hjá smærri og sparneyttari bílum. Við töldum forsendur fyrir því að hafa fleirri gjaldaþrep og að allir bílar undir þrjú og hálfu tonni væru ekki í sama gjaldþrepi,“ segir Róbert sem tekur fram að skynsamlegt hefði verið að hafa hvata til að vera á sparneyttari bílum. Núverandi kerfi ívilni eyðslumeiri bílum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×