Innlent

Borgar­stjóri fór með rangt mál

Agnar Már Másson skrifar
„Ég er ekkert að gramsa í þessu,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, sem etur nú kappi við Pétur Marteinsson í prófkjöri Samfylkingarinnar.
„Ég er ekkert að gramsa í þessu,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, sem etur nú kappi við Pétur Marteinsson í prófkjöri Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri bað lögmenn borgarinnar um að kanna lóðarsölu Péturs Marteinssonar, mótframbjóðanda síns í prófkjöri Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að hafa þvertekið fyrir það í fjölmiðlaviðtölum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg óskaði hún eftir upplýsingum um hvort Pétur hefði mátt framselja lóðarrétt samhliða sölu á félagi sínu.

„Nei, alls ekki,“ svaraði Heiða Björg í samtali við fréttastofu Sýnar fyrr í vikunni þegar fréttamaður spurði hvort það væri að hennar beiðni sem lögfræðingar borgarinnar könnuðu hvort Pétur, sem er mótframbjóðandi Heiðu í prófkjöri Samfylkingarinnar í höfuðborginni, hefði mátt framselja hlut sinn í uppbyggingu á lóðum í Skerjafirði árið 2023.

Svör frá Reykjavíkurborg segja aftur á móti aðra sögu, en þar kemur fram að borgarstjóri hafi, með vísan til fréttar um mál Péturs, óskað eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um framsal lóða. Rúv greindi fyrst frá en Vísir hefur fyrirspurn borgarstjórans undir höndum.

Fyrirspurnin var send frá skrifstofu borgarstjóra til lögfræðinga á umhverfis- og skipulagssviði, sem könnuðu síðan málið.

Seldi félag sem átti lóðir í Nýja-Skerjó 

Lóðasala Péturs er orðin að einu stærsta bitbeini í oddvitaslag Samfylkingarinnar 'i Reykjavík. Pétur er einn stofnenda félagsin HOOS 1, sem sigraði hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar árið 2018 og fékk þannig úthlutaða lóð til íbúðauppbyggingar í Nýja Skerjafirði. Félagið greiddi tæpar 50 milljónir fyrir lóðina og átti að greiða 430 milljónir þegar hún yrði tilbúin. 

En Pétur og félagar ákváðu síðan að selja lóðina árið 2023. Var það vegna mikilla tafa á áformunum að sögn Péturs. Enn eru engar framkvæmdir hafnar á umræddri lóð. Reykjavíkurborg sagði tafirnar vegna ágreinings ríkis og borgar um lóðina. 

Í byrjun janúar birti Heimildin umfjöllun um þessa sölu en þar kom fram að frambjóðandinn hefði sagt sig úr stjórn samdægurs sem blaðamaður miðilsins spurði hann út í málið. Kom enn fremur fam að þrýsti á þáverandi borg­ar­stjóra að koma upp­bygg­ingunni í far­veg, jafnvel eftir að hann hefði selt félagið. Pétur þvertók samt þar fyrir að hann hefði átt hagsmuni af því að lóðauppbygging hæfist inni á skilgreindu flugvallarsvæði á Reykjavíkurflugvelli, en deilur hafa lengi staðið yfir milli ríkis og Reykjavíkurborgar vegna Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri.

Pétur græddi 69 milljónir króna af sölunni sem hann sagði hafa að stórum hluta farið í launakostnað.

Heiða sagðist „ekkert vera að gramsa í þessu“ 

Síðustu helgi hafði mbl.is eftir Heiðu borgarstjóra að lögfræðingar Reykjavíkurborgar hefðu til skoðunar hvort Pétri hefði verið heimilt að framselja lóðina. 

Þrátt fyrir að hafa neitað því í samtali við fjölmiðla að hún hefði sjálf beðið lögfræðingana um að málið yrði skoðað, kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Vísis að Heiða hafi föstudaginn 9. janúar óskað eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um framsal lóða. Rúv greindi fyrst frá fyrirspurn borgarstjórans.

„[B]orgarstjóri óskar eftir upplýsingum um hvort rétt sé að óheimilt sé að framselja rétt sinn til lóðar til annars aðila sbr. eftirfarandi frétt [H]eimildarinnar og hvernig þessu var háttað í viðeigandi tilfelli,“ segir í fyrirspurn frá skrifstofu borgarstjóra sem send var til lögfræðinga á umhverfis- og skipulagssviði. Vísaði borgarstjóri þar til fyrrnefndrar fréttar Heimildarinnar um lóðarframsal Péturs.

Hún hafi sent þessa beiðni vegna þess að spurningarnar hefðu komið upp í viðtali á Útvarpi Sögu, auk þess sem umfjöllun Heimildarinnar hafi vakið upp spurningar, samkvæmt svari borgarinnar.

Í vikunni neitaði hún aðkomu sinni að málinu og sagðist ekki hafa vita nægilega mikið um málið til að tjá sig. 

„Þannig ég er ekkert að gramsa í þessu,“ sagði hún einnig í viðtali við Sýn á þriðjudag, 13. janúar.

Lögfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að HOOS 1 ehf. eigi enn lóðarréttinn á lóðinni þó félagið væri ekki í eigu Péturs og félaga enda hefði engin beiðni um aðilaskipti borist, samkvæmt svörum borgarinnar við fyrirspurn Vísis frá því fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir

Andstæðan við lóðabrask

Pétur Marteinsson sem vill leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík segir að miklar tafir á uppbyggingaráformum hans og félaga í Nýja Skerjafirði hafi gert það að verkum að þeir hafi ákveðið að selja lóðina sem þeim var úthlutað á svæðinu.

Neitar að hafa sigað lögmönnum borgarinnar á Pétur

Borgarstjóri Reykjavíkur neitar því að hafa sigað lögmönnum borgarinnar á mótframbjóðanda sinn í oddvitaslag Samfylkingarinnar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Mótframbjóðandinn gefur lítið fyrir athugun lögmannanna á lóðum sem voru í eigu félags hans, málið skipti hann engu máli.

„Markmiðið var aldrei að kaupa eign til að selja með hagnaði“

Pétur Marteinsson, sem vill leiða lista Samfylkingar í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum, segir að markmið hans hafi aldrei verið að kaupa lóðir til þess að selja síðar með hagnaði. Fram hefur komið að hann hafi fengið 69 milljónir króna í sinn hlut eftir sölu á lóð í Skerjafirði fyrir tveimur árum. Hann segir undirbúning byggingu ódýrra íbúða á lóðinni hafa verið aðalstarf hans í fimm ár. Fyrir það hafi hann verið með reiknuð laun upp á 25 milljónir króna, sem gerir 417 þúsund krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×