Innlent

Telur við­brögð Guð­brands rétt og skyn­sam­leg

Oddur Ævar Gunnarsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra er jafnframt varaformaður Viðreisnar.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra er jafnframt varaformaður Viðreisnar. Vísir/Bjarni

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og varaformaður Viðreisnar segist telja að viðbrögð Guðbrands Einarssonar sem sagði af sér þingmennsku vegna fréttar af tilraun hans til vændiskaupa hafi verið rétt og skynsamleg. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar er stödd erlendis. Fréttastofa fékk því viðbrögð hjá Daða af máli Guðbrands sem fjallað var um á Vísi í morgun. Guðbrandur, sem var þingmaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku vegna tilraunar til að kaupa vændi árið 2012. Fram kom að hann var yfirheyrður af lögreglu á sínum tíma en ekki ákærður. Guðbrandur tók ákvörðun um afsögn þegar Vísir ætlaði að fjalla um málið og sagðist hafa gert stór mistök sem hann harmi mjög.

Fékk að vita af málinu í gær

„Þetta er auðvitað alvarlegt mál,“ segir Daði Már. „Ég tel að viðbrögð hans hafi verið rétt og skynsamleg en get annars ekki tjáð mig meira um það.“

Var hann búinn að greina þingflokknum frá þessu, að þetta hefði gerst?

„Ég fékk að vita þetta seinni partinn í gær.“

Hefðiru talið að hann hefði átt að upplýsa um þetta áður en hann tekur við þingmennsku?

„Það er auðvitað spurning sem má alltaf velta fyrir sér. En ég held að það mikilvægasta sé að hann axli ábyrgð þegar þetta kemur fram.“

Telurðu að það gætu fleiri svona mál verið í farvatninu, hefurðu einhverja hugmynd um það?

„Ég veit um ekkert slíkt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×