Innlent

Dómari skapað hættu­legt for­dæmi fyrir of­beldis­menn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðný S. Bjarnadóttir er stjórnarformaður Vitundar, samtaka gegn kynbundnu ofbeldi.
Guðný S. Bjarnadóttir er stjórnarformaður Vitundar, samtaka gegn kynbundnu ofbeldi. Vísir/Lýður Valberg

Samtök gegn kynbundnu ofbeldi segja alvarlegt að dómari hafi veitt ofbeldismanni skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn sambýliskonu og að ríkissaksóknari hafi kosið að áfrýja ekki. Maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir að brjóta á stjúpdóttur sinni.

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni þegar hún var sex til níu ára gömul. Þegar brotin áttu sér stað var maðurinn á skilorði eftir að hafa fengið fimm ára dóm fyrir brot í nánu sambandi, nauðgun og brot gegn kynferðislegri friðhelgi sambýliskonu sinnar, móður stúlkunnar.

Brotaþoli bað um skilorðsbundinn dóm

Það er afar sérstakt að einstaklingur fái svo þungan dóm bundinn skilorði, þá sérstaklega eftir gróf kynferðisbrot. Í dómnum, sem er frá febrúar 2024, kemur fram að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust og hann sé fullur eftirsjár. Hann hafi leitað sér aðstoðar vegna ofbeldishneigðar. 

Þá mun brotaþoli hafa ávarpað dóminn og sagt hegðun mannsins hafa breyst. Þau hefðu tekið aftur saman, hann orðið góður faðir og maki. Hún vildi að honum yrði gerð refsing en yrði hann dæmdur til fangelsisvistar væru afleiðingarnar verri fyrir hana en manninn þar sem hún myndi líklega missa húsnæði sitt og standa ein eftir. Dómari varð við beiðni brotaþola.

Ekki hægt að útiloka þvingun

Guðný S. Bjarnadóttir, stjórnarformaður Vitundar, samtaka gegn kynbundnu ofbeldi, segir dómara þarna hafa sett alvarlegt fordæmi.

„Það sem við erum alltaf að biðja um er að það sé góð þekking innan réttarkerfisins og að það sé áfallamiðuð nálgun. Þarna er ekki hægt að ganga úr skugga um það að vitnisburður brotaþola sé ekki þvingaður. Þess vegna skapar þetta mjög hættulegt fordæmi hvað varðar ofbeldisdóma og kynferðisofbeldisdóma,“ segir Guðný. 

Allt of algengt

Fjölmörg dæmi séu um að gerandi reyni að fá brotaþola til að breyta vitnisburði eða hafa áhrif á dómara.

„Því miður er það bara mjög algengt. Við erum að sjá að það er mjög erfitt að ná fram ákærum í þessum málum, hvað þá sakfellingu. Þess vegna skýtur það skökku við að dómurinn sé skilorðsbundinn að fullu. Ég set stórt spurningarmerki við það hvers vegna verið er að skilorðsbinda fyrir svona alvarleg brot. Ég velti fyrir mér fyrir hvern réttarkerfið er að virka, er það fyrir brotaþola eða er það fyrir gerendur?“ spyr Guðný. 

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir dóm héraðsdóms hafa borist á borð embættisins, en ákveðið var að áfrýja honum ekki. Vísir/Vilhelm

Ákváðu að áfrýja ekki til Landsréttar

Á sínum tíma barst dómurinn á borð ríkissaksóknara sem ákvað að áfrýja dómnum ekki, með hliðsjón af óvenjulegri skýlausri játningu og einlægri ósk brotaþola.

„Þarna finnst mér kerfið hafa brugðist brotaþola og brugðist börnum. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé eitthvað sem er búið að gerast mjög oft nú þegar og hvort verið sé að koma fólki í verulega hættu,“ segir Guðný. 


Tengdar fréttir

Slapp óvænt við fangelsi og braut ítrekað á stjúpdóttur sinni

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni þegar hún var sex til níu ára gömul. Sami maður hlaut fyrir tveimur árum þungan dóm fyrir kynferðisbrot gegn móður stúlkunar en sat aldrei inni, að sérstakri ósk móðurinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×