Neytendur

Nýtt gjald á bíó­miða í vefsölu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sambíóin hafa verið í Álfabakka í Mjódd í fjóra áratugi en í lok janúar flytur keðjan úr húsinu.
Sambíóin hafa verið í Álfabakka í Mjódd í fjóra áratugi en í lok janúar flytur keðjan úr húsinu. Vísir/Vilhelm

Viðskiptavinir Sambíóanna borga nú 120 krónur aukalega panti þeir bíómiða í gegnum vefsíðu bíóhúsanna. Gjaldið er nefnt úrvinnslugjald en framkvæmdastjóri segir gjaldinu ætlað að koma til móts við aukinn kostnað meðal annars vegna reksturs og viðhalds miðasölukerfa. Það geri Sambíóunum kleyft að halda miðaverði stöðugu.

Það var viðskiptavinur Sambíóanna sem vakti athygli fréttastofu á hinu nýja gjaldi. Bíómiði kostar nú 2350 krónur en nú bætist við svokallað úrvinnslugjald, 120 krónur þannig að samtals kostar þá 2470 krónur í bíó sé pantaður miði í gegnum netið. Til samanburðar kostar miði í Smárabíó nú 2440 krónur og 2350 krónur í Laugarásbíó miðað við vefsíður kvikmyndahúsanna.

Björn Á. Árnason framkvæmda og fjármálastjóri Samfilm segir í skriflegu svari til Vísis að gjaldið sé tekið upp hérlendis mörgum árum eftir að það hafi verið gert í öðrum löndum. Líkt og áður hefur komið fram munu Sambíóin í Álfabakka loka dyrum sínum í síðasta sinn í janúar en rekstraraðilar hafa sagt rekstri kvikmyndahúsanna áfram sinnt af fullum krafti bæði í Kringlunni og Egilshöll, sem og á Akureyri.

Kostnaður hafi aukist

„Þetta gjald, sem nefnist “booking fee” í enskumælandi löndum, er aðallega hugsað sem þjónustugjald sem stendur undir kostnaði við rafræna miðasölu. Eftir tilkomu netmiðasölu hefur kostnaður vegna greiðslugjalda, rekstur og viðhald miðasölukerfa, tæknilausnir og þjónusta sem tryggir örugga og þægilega netbókun aukist töluvert og er þetta gjald ætlað til að koma á móts við þann kostnað. Þetta gjald er utan tekjuskiptingar við dreifiaðila (studíóin) og hjálpar okkur að halda miðaverði stöðugu.“

Athygli vekur að tvær útgáfu af vefsíðu Sambíóanna eru í loftinu þegar fréttin er skrifuð. Ný útgáfa var gefin út í fyrra til prufu en noti viðskiptavinir þá gömlu þá rukkast hið nýja 120 króna gjald ekki með bíómiðanum. Björn segir um að ræða mistök af hálfu erlends fyrirtækis sem sjái um miðasölukerfi Sambíóanna og vefsíður.

„Þetta gjald var sett á núna rétt fyrir jól og á sama tíma og þeir settu það inn áttu þeir að loka eldri síðunni en gerðu það ekki (af einhverri ástæðu), fóru svo í jólafrí.

Skilst að þeir séu að detta inn í dag eða á morgun og mun þá eldri síðunni vera lokað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×