Innlent

Fjöldi glæpa­hópa á Ís­landi hefur tvö­faldast á tíu árum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Karl Steinar Valsson segir lögreglu róa öllum árum að því að takmarka starfsemi glæpahópa hér á landi. Þeir hafi upp á síðkastið verið að færa sig upp á skaftið.
Karl Steinar Valsson segir lögreglu róa öllum árum að því að takmarka starfsemi glæpahópa hér á landi. Þeir hafi upp á síðkastið verið að færa sig upp á skaftið. Vísir

Fjöldi skipulagðra glæpahópa á Íslandi hefur tvöfaldast á tæpum tíu árum. Þetta segir yfirmaður hjá Ríkislögreglustjóra en aukin umsvif og sýnileiki Hells Angels á Íslandi eru það sem varð til þess að lögregla ákvað að ráðast í aðgerðir um helgina.

Fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu teldi Hells Angels á Íslandi hafa aukið umsvif sín og sýnileika hér á landi. Samtökin séu heimsfræg fyrir skipulagða brotastarfsemi og nauðsynlegt hafi verið að bregðast við af festu um helgina þegar samtökin boðuðu til hittings í Kópavogi. Lögregla auk sérsveitar lokaði götunni, leitaði á gestum og handtók þrjá sem svo var sleppt. 

Karl Steinar Valsson yfirmaður greiningarsviðs Ríkislögreglustjóra segir skipulagða glæpastarfsemi hafa færst í aukana að undanförnu. Lögregla hafi gripið til markvissra fyrirbyggjandi aðgerða fyrir nokkrum árum sem skilað hafi árangri. Nýlega hafi hinsvegar borið aftur á starfsemi hópanna. „Það virðist vera heldur að aukast núna og það eru í raun að okkar mati allir þessir þrír þekktustu hópar hjá vélhjólasamtökum sem eru starfandi á Íslandi í dag.“

Komnir með fótfestu 

Fyrir átta árum lýsti Ríkislögreglustjóri yfir áhyggjum af því að samtök líkt og Hells Angels væru að leitast við að skapa sér stöðu hér á landi. Karl segir að það hafi nú raungerst sem sé mikið áhyggjuefni. „Þeir eru með þá stöðu hér núna. Þeir voru með mjög litla starfsemi en hún er orðin þannig að hún er orðin meira áberandi og það skýrir þá aðgerðir sem lögregla hefur verið í.“

Skipulögð glæpastarfsemi feli í sér margvíslegan skaða fyrir íslenskt samfélag. Alþjóðleg lögregluyfirvöld líti á hana sem mestu ógnina við vestræn samfélög. 

„Þetta á að vera eitt af forgangsatriðum sem lögregla er að vinna að en að því koma miklu fleiri en við því þetta tengist inn í fjármálalífið, raunverulega daglegt líf borgara með svo margvíslegum hætti,“ segir Karl. Þannig komi sem dæmi fram í nýrri skýrslu Europol að önnur vandamál fylgi skipulagðri brotastarfsemi.

„Hluti af löndum sem eru að stunda njósnir og hryðjuverkaskipulag og fleira notfæra sér þessa starfsemi líka. Það er nýjasta myndin sem við höfum verið að sjá tengt skipulagðri brotastarfsemi. Það má segja að hún hafi verið að þróast og sú þróun hafi ekki verið neitt sérstaklega heillavænleg.“

Um tuttugu virkir hópar

Árið 2017 sögðu yfirvöld að hér á landi væru um tíu virkir hópar í skipulagðri brotastarfsemi. Fyrir fjórum árum voru þeir orðnir fimmtán en eru í dag að sögn Karls orðnir í kringum tuttugu talsins, fjöldi þeirra tvöfaldast á tæpum tíu árum. Vélhjólahóparnir þar á meðal.

Þetta er kannski dramatísk spurning, en eruð þið að tapa baráttunni? Eruð þið nógu vel í stakk búin til þess að takast á við þessa hópa? 

„Þetta er eðlileg spurning en mjög erfitt að svara henni. Við erum að gera allt sem við getum með þeim ráðum sem við höfum tiltæk og við leitum fyrirmynda og við erum í mjög öflugu alþjóðlegu samstarfi til þess að reyna að berjast gegn því,“ segir Karl.

„Það hefur verið niðurstaðan, að samvinna lögregluembætta og lögregluliða um allan heim og sérstaklega vesturlanda er það líklegasta til að ná árangri og það er þannig sem við vinnum í dag og áhersla okkar lýtur að því að reyna að sporna gegn því að skipulagðir glæpahópar geti unnið þá starfsemi sem þeir kjósa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×