Innlent

Hekla Aurora kveður með útsýnisflugi frá Reykja­vík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugtak Norðurljósaþotunnar á Reykjavíkurflugvelli er áætlað klukkan tólf á hádegi og lending einum og hálfum tíma síðar, um klukkan hálftvö. Hekla Aurora er elsta flugvél Icelandair, 31 árs gömul.
Flugtak Norðurljósaþotunnar á Reykjavíkurflugvelli er áætlað klukkan tólf á hádegi og lending einum og hálfum tíma síðar, um klukkan hálftvö. Hekla Aurora er elsta flugvél Icelandair, 31 árs gömul. Wikimedia/Russell Lee

Boeing 757-þotan Hekla Aurora, eða Norðurljósaþotan, er að ljúka ferli sínum hjá Icelandair. Af því tilefni efnir félagið til sérstaks kveðjuflugs frá Reykjavíkurflugvelli í hádeginu á morgun, sunnudag.

„Hún hefur heillað farþega okkar með töfrum norðurljósanna, fallega skreytt í litadýrð þeirra. Sérstakt kveðjuflug vélarinnar er ógleymanlegt tækifæri fyrir flugáhugafólk til að fagna arfleifð einnar ástsælustu flugvélar Icelandair,“ segir í kynningu félagsins á kveðjufluginu.

Hekla Aurora er ein þriggja 757-flugvéla sem Icelandair lét mála í sérlitum. Vatnajökull, sem máluð var í jöklaþema árið 2017, fór í sitt síðasta flug frá Íslandi þann 22. september, fyrir þremur vikum. 

Flugvélin Vatnajökull flaug í síðasta sinn frá landinu fyrir þremur vikum.Vísir/Vilhelm

Þingvellir var máluð í íslensku fánalitunum árið 2018 í tilefni eitthundrað ára fullveldisafmælis en einnig til heiðurs íslenska karlalandsliðinu í fótbolta þegar það vann sér sæti í úrslitum heimsmeistaramótsins. Hún fór úr þjónustu félagsins í fyrra.

Boeing-þotan Þingvellir var máluð í fánalitum Íslands. Hún var af lengri gerðinni 757-300 og kvaddi í fyrra.Matt Varley

Hekla Aurora, eða TF-FIU, er núna elsta flugvél Icelandair, liðlega 31 árs gömul. Hún kom úr verksmiðju Boeing í Renton í Seattle í júlí 1994 og var fyrst í þjónustu spænska flugfélagsins Iberia. Til Icelandair kom hún árið 2004. Í lok árs 2014 var hún máluð í litum norðurljósanna og lýsing um borð jafnframt endurhönnuð í sama stíl.

Brottför frá Reykjavíkurflugvelli er áætluð klukkan tólf á hádegi. Gert er ráð fyrir að kveðjuflugið verði um það bil 90 mínútna langt. Stefnt er á að fljúga í lágflugi yfir nokkrar náttúruperlur Íslands en flugleiðin ræðst af veðurspá.

„Veðrið lítur best út fyrir norðan og austan svo við fljúgum líklega fyrst norður, niður eftir Austfjörðum og svo yfir hálendið til baka,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

„Hún hefur heillað farþega okkar með töfrum norðurljósanna, fallega skreytt í litadýrð þeirra,“ segir í lýsingu Icelandair á flugvélinni.Icelandair

Flugstjórinn Björn Magnús Sverrisson er jafnframt að kveðja 757-þotuna og verður þetta hans síðasta flug á henni. Hann flyst svo yfir á Boeing 737 max.

Síðdegis var búið að bóka öll Saga sæti og gluggasæti voru uppseld. Alls voru yfir 130 manns búnir að kaupa sér far.

„Stefnan var að þetta yrði hennar síðasta ferð en svo var einni áætlunarferð bætt við á þriðjudaginn 12. október. Hún fer svo líklega í niðurrif eftir það,“ segir Guðni.

Flugáhugamenn telja margir 757-þotuna meðal fegurstu flugvéla, eins og heyra má á lýsingum hér:

757-þoturnar hafa hver af annarri verið að víkja fyrir nýrri gerðum flugvéla hjá Icelandair, fyrst fyrir Boeing 737 max-þotum og núna fyrir Airbus A321-þotum. Icelandair fékk fyrstu 757-þotuna árið 1990 og hafa þær því núna verið í þjónustu félagsins í 35 ár, lengur en nokkur önnur tegund.

Í þættinum Flugþjóðin fyrr á árinu var sagt frá aðdraganda þess að Flugleiðir völdu að kaupa 757:

Boeing 757-þotan er sú flugvélartegund sem byggði upp Icelandair. Ráðamenn félagsins gera núna ráð fyrir að hætta rekstri hennar eftir sumarið 2027:


Tengdar fréttir

Arftaki 757-þotunnar ekki í boði frá Boeing

Boeing-verksmiðjurnar hættu smíði 757-þotunnar árið 2004, þeirrar flugvélartegundar sem byggði upp Icelandair. Boeing hefur til þessa ekki getað boðið flugfélögum upp á annan valkost sem getur algerlega komið í staðinn fyrir 757-vélina.

Fyrstu 757-þotu Íslendinga lagt eftir 33 ára þjónustu

Fyrstu Boeing 757-þotunni sem Íslendingar eignuðust, TF-FIH, hefur núna verið lagt, eftir 33 ára þjónustu hjá Icelandair. Engin flugvélartegund hefur þjónað íslenskum flugfarþegum jafn lengi og þessi.

Vél Icelandair í fánalitunum

Þingvellir, ný Boeing 757-300 þota Icelandair, var á dögunum máluð í íslensku fánalitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×