Sport

Magavandamálin farin að trufla hana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Kolbeinsdóttir er óhrædd við að tjá sig um vandamálið sem hún ætlar nú að leita sér hjálpar við.
Andrea Kolbeinsdóttir er óhrædd við að tjá sig um vandamálið sem hún ætlar nú að leita sér hjálpar við. @andreakolbeins

Íslenska hlaupakonan Andrea Kolbeinsdóttir skrifaði stuttan pistil á samfélagsmiðlum þar sem hún segir frá því sem hefur verið að hrjá hana í ár. Hún ætlar að leita lausna og hætta að reyna að finna út úr öllu sjálf.

Andrea fór yfir málin eftir heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum þar sem hún náði þrettánda sætinu.

„Síðan ég bókstaflega skeit á mig í Kaupmannahafnarmaraþoninu ætlaði ég svo mikið að sýna mig í hinu stóra markmiði ársins, en allt kom fyrir ekki. Þó að þrettánda sæti á HM sé ekki slæmur árangur átti ég mjög vonda upplifun í mjög löngu hlaupi,“ skrifaði Andrea.

Það er orðið henni ljóst að magavandamálin eru farin að trufla hana og hennar undirbúning fyrir keppnir.

„Ég hef alltaf verið með viðkvæman maga, en undanfarið hefur það farið versnandi og flestar keppnir einkennst af því að vera hrædd um að fá í magann,“ skrifaði Andrea.

Andlegi þátturinn er stór þáttur í lífi íþróttamanns og það er nóg af stressi og álagi þótt þetta bætist ekki við.

„Þegar hlaup fara að snúast um það er ekki gaman, og þegar það er ekki gaman ertu ekki með rétta hugarfarið, og þegar þú ert ekki með rétta hugarfarið gerir þú ekki mikið af viti,“ skrifaði Andrea.

„Það ásamt fleiri atriðum er bara kafli í bókinni. Í næsta kafla ætla ég að hætta að reyna að finna út úr öllu sjálf og fá aðstoð við að finna út úr hlutunum. Það besta og erfiðasta við þessa blessuðu bók er að þú ert höfundurinn og ræður hvernig næsti kafli verður,“ skrifaði Andrea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×