Innlent

Of­beldis­mál gegn kennurum komi upp á öllum skóla­stigum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Magnús Þór Jónsson er formaður Kennarasambands Íslands.
Magnús Þór Jónsson er formaður Kennarasambands Íslands. Vísir/Vilhelm

Formaður Kennarasambands Íslands segir dæmi um nemendur á öllum skólastigum sem ráðast á kennara sína. Skóli án aðgreiningar sé ekki vandamálið, heldur þurfi að styrkja verkefnið frekar. 

Í kvöldfréttum Sýnar í gær var rætt við skólastjóra Hörðuvallaskóla í Kópavogi, sem sagði nemendur ítrekað ganga í skrokk á kennurum. Þungum nemendamálum hafi fjölgað í skólakerfinu síðustu ár og skólastjórar upplifi að skólarnir séu að bregðast nemendum sem fá ekki pláss í sérúrræðum sem sótt er um.

Ákveðin brotalöm

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir það þurfa að veita kennurum meiri bjargir inn í skólastofuna.

„Þetta er tvíþætt, annars vegar að við þurfum að bregðast við málum sem koma upp innan skólanna með því að styrkja skólana og efla þeirra bjargir. Við þurfum líka að horfast í augu við það að eiga úrræði utan við skólanna sem bregðast við þeim málum sem eru orðin of þung. Þetta hefur því miður verið ákveðin brotalöm sem við höfum rætt og þurfum að skoða heilt yfir sem samfélag en ekki út frá einstöku máli og alls ekki út frá einu skólastigi. Það er mjög mikilvægt,“ segir Magnús. 

Styrkja þurfi skóla án aðgreiningar

Hann segir það koma reglulega upp mál á öllum skólastigum þar sem nemendur ráðast á kennara. Skóli án aðgreiningar sé ekki vandamálið heldur þarf að styrkja kerfið.

„Við erum kannski með barn fjögurra, fimm, sex ára sem er farið að sýna þessa hegðun og er með þennan fjölþætta vanda. Við getum ekki reiknað með því að kúpla það úr samfélaginu. SKóli án aðgreiningar þýðir skóli fyrir alla. Það þarf að styrkja þær stoðir sem verða til þess að börn geti farið í skóla án aðgreiningar. Svo þurfum við að hjálpa ákveðnum einstaklingum betur en við erum að gera í dag,“ segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×