Innlent

Hægt verði að aka yfir brúna næsta sumar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Brúardekk brúarinnar við Breiðholtsbraut var steypt um helgina. 
Brúardekk brúarinnar við Breiðholtsbraut var steypt um helgina.  Aðsend

Steypuvinnu við nýja brú yfir Brauðholtsbraut lauk um helgina. Verkefnastjóri segir verkið ganga vel, en þrátt fyrir takmarkanir á umferð eru alltaf einhverjir sem virða ekki reglurnar.

Brúin er hluti af nýjum Arnarnesvegi milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Tvær akreinar verða í báðar áttir og svo göngu- og hjólastígur. Breiðholtsbraut var lokað um helgina vegna framkvæmdanna.

„Það tekur nú við frágangur á burðarkerfi brúarinnar. Hún er eftirspennt eins og sagt er. Kaplakerfið liggur í gegnum brúna og það þarf að strekkja það. Svo er það yfirborðsfrágangur á brúardekkinu sjálfu,“ segir Höskuldur Tryggvason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

En stærsta skrefið var um helgina þegar þetta var steypt?

„Já, það má segja að það hafi verið stærsta og viðkvæmasta skrefið í framkvæmdinni.“

Brúin er mikið mannvirki og vonast er til þess að hægt verði að opna hana næsta sumar.

Mikil slysahætta getur skapast þegar ekið er með of háan farm undir brúna, en upp hafa komið tilvik þar sem ekið er á hæðarvarnarbúnað við hana.

„Það eru að koma bílar með háfermi. Það er stórhættulegt því undirslátturinn undir brúna er í fjórum metrum og sjötíu sentimetrum. Við höfum séð bíla sem rétt sleikja það. Ef þeir fara upp í er viðbúið að þetta fari allt niður. Þeir með háfermi ættu alls ekki að koma hingað og við erum að manna vaktir sitt hvoru megin við. Þessari umferð er beint frá,“ segir Höskuldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×