Innlent

Dóms­mál á hendur starfs­manni Múlaborgar hafið

Árni Sæberg skrifar
Leikskólinn Múlaborg er í Ármúla.
Leikskólinn Múlaborg er í Ármúla. Vísir/Anton Brink

Ákæra á hendur starfsmanni leikskólans Múlaborgar, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn börnum á leikskólanum, var þingfest í morgun. Afstaða hans til sakargiftanna liggur ekki fyrir. Þá liggur efni ákærunnar ekki fyrir að svo stöddu.

Þetta staðfestir Bjarni Hauksson, verjandi mannsins, í samtali við Vísi en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þingfestingunni. Bjarni segist ekkert geta gefið upp um afstöðu mannsins til sakargifta þar sem málið er háð fyrir luktum dyrum.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála skulu þinghöld háð í heyranda hljóði en dómari getur þó ákveðið, að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola, að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, telji hann það nauðsynlegt. Algengasta ástæða þess að þinghöldum er lokað er til þess að vernda nafnleynd og hagsmuni brotaþola.

Ríkisútvarpið greinir sömuleiðis frá því að starfsmaðurinn hafi ekki mætt í dómsal í morgun heldur hafi hann upplýst dóminn um afstöðu sína í gegnum fjarfundarbúnað.

Sem áður segir liggur ekki fyrir að svo stöddu fyrir hvað maðurinn sætir ákæru. Fram kom í fréttum í byrjun októbermánaðar að maðurinn, sem hafði verið leiðbeinandi á Múlaborg í um tvö ár þegar málið kom upp, sé grunaður um að hafa brotið á fleiri en tíu börnum.

Maðurinn var handtekinn um 12. ágúst þegar grunur um brot kviknaði í kjölfar þess að barn á leikskólanum, sem varð fyrir meintu kynferðisbroti, greindi foreldrum sínum sjálft frá atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×