Erlent

Alríki fjár­magnað út janúar 2026

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump hrósaði sigri í gær en um er að ræða skammgóðan vermi, þar sem frumvarpið gildir aðeins til loka janúar 2026.
Trump hrósaði sigri í gær en um er að ræða skammgóðan vermi, þar sem frumvarpið gildir aðeins til loka janúar 2026. Getty/Win McNamee

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í nótt nýtt frumvarp um fjármögnun alríkisins, hvers starfsemi hefur verið lömuð í yfir fjörtíu daga. 

Nokkrir öldungadeildarþingmenn Demókrata hjuggu á hnútinn á dögunum og samþykktu frumvarp Repúblikana og í gærkvöldi var málið borið undir fulltrúadeildina, þar sem það var samþykkt. 

Forsetinn fékk það svo inn á sitt borð skömmu síðar og undirritaði. 

Trump sagði meðal annars við undirritunina að héðan í frá myndu ríkisstofnanir starfa með eðlilegum hætti en næstum ein og hálf milljón ríkisstarfsmanna hefur annað hvort setið heima í rúma fjörutíu daga án launatékka eða þeir verið látnir vinna launalaust. 

Meðal annars var farið að bera á seinkunum í farþegaflugi innanlands, þar sem flugumferðarstjóra fengu ekki borgað. Þá voru uppi miklar áhyggjur af því að mesta ferðahelgi Bandaríkjamanna, Þakkargjörðarhátíðin, myndi skapa öngþveiti á flugvöllum landsins. 

Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeildinni með 222 atkvæðum gegn 209. Nokkrir Demókratar gáfu eftir og greiddu atkvæði með málinu og settu þannig kröfur flokksins um framlengingu ákvæða „Obamacare“, sem renna að óbreyttu út í árslok, í uppnám.

Trump sagði í gær að Repúblikanar hefðu sent skýr skilaboð; þeir myndu ekki láta undan hótunum Demókrata. Hakeem Jeffries, leiðtogi minnihlutans í fulltrúadeildinni, sagði hins vegar að baráttan væri rétt að byrja; annað hvort myndu Repúblikanar grípa til aðgerða í heilbrigðismálum eða tapa stórt í þingkosningunum á næsta ári.

Lausn málsins nú er aðeins tímabundin, því frumvarpið heimilar aðeins fjárveitingar til alríkisins fram til loka janúar á næsta ári. Fyrir þann tíma þurfa þingmenn að sættast á nýtt frumvarp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×