Erlent

Ætlar að lög­sækja BBC þrátt fyrir af­sökunar­beiðni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump ætlar að lögsækja BBC.
Donald Trump ætlar að lögsækja BBC. EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti blaðamönnum í gær að hann hyggst lögsækja breska ríkisútvarpið þrátt fyrir að forsvarsmenn þess hafi beðist afsökunar á klippingu fréttaskýringarþáttarins Panorama þar sem ræða hans er klippt í því skyni að breyta skilaboðum forsetans. Hann hótar lögsókn upp á milljarð dala.

Í Panorama var tveimur ræðum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt skeytt saman í klippingu sem lét forsetann líta út fyrir að hafa hvatt meira til árásarinnar á þinghúsið í Bandaríkjunum 6. janúar heldur en hann gerði í raun.

Trump sagði því í þættinum: „Við ætlum að ganga að þinghúsinu og ég verð með ykkur þar, og við munum berjast. Við munum berjast til enda.“ Orðin voru klippt saman upp úr ræðunni en um klukkustund var á milli þeirra.

Fréttaskýran ber nafnið Trump: A Second Chance? og var birt fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra þar sem Trump sigraði. Daily Telegraph gerði umfjöllun um klippingu þáttarins og í kjölfar þess sögðu bæði Tim Davie forstöðumaður og Deborah Turness fréttastjóri af sér störfum. 

Trump var þó ekki sáttur með þáttinn og sagði breska ríkisútvarpið þurfa að afturkalla þáttinn í heild, biðja Trump sjálfan afsökunar og greiða honum fyrir skaðann sem þátturinn olli. Ef fjölmiðillinn yrði ekki við þessu myndi hann lögsækja hann upp á milljarð dollara, tæpar 127 milljarða íslenskra króna.

BBC bað Trump þá afsökunar og samþykktu að þátturinn verði ekki aftur sýndur. Hins vegar hafna þau kröfu Trumps um að honum verði greiddar bætur vegna málsins. Samir Shah, stjórnarformaður BBC, sendi forsetanum persónulega afsökunarbeiðni samkvæmt The Guardian.

Það virðist ekki hafa nægt forsetanum og ætlar hann því að lögsækja BBC. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×